Dótturfyrirtæki Samherja, Cuxhavener Rederei og Icefresh, munu kaupa 22% hlut í norska sjávarútvegsfyrirtækinu Nergård. Ætlunin er að fyrirtækin vinni náið saman í framleiðslu og sölu á ferskum, frystum og þurrkuðum afurðum, að því fram kemur í fréttatilkynningu frá Nergård.
Kaupin eru hluti af viðleitni beggja fyrirtækjanna til þess að auka áherslu á ferskar afurðir, segir Tommy Torvanger forstjóri Nergård í samtali við sjávarútvegsvefinn Undercurrentnews.com , en hann vildi ekki upplýsa um kaupverðið.
Á vef Nergård kemur fram að fyrirtækið, sem er með aðalskrifstofu í Tromsö í Norður-Noregi, geri út fimm togara og starfræki fiskvinnsluhús og sölufyrirtæki. Hjá því starfa 440 manns.