Stjórn Samherja hf.hefur samþykkt að skipta félaginu upp og aðskilja reksturinn hér á landi frá öðrum hlutum fyrirtækisins, að því er fram kemur á vef Viðskiptablaðins. Við skiptinguna mun einkahlutafélagið Samherji Ísland taka yfir hluta af eignum og skuldum Samherja hf.

Eins og segir í skiptingaráætlun, sem stjórn Samherja undirritar og Viðskiptablaðið hefur undir höndum, er um að ræða allan sjávarútvegsrekstur Samherja hf. á Íslandi ásamt öllum eignum og skuldum sem honum tilheyra.

Í yfirlýsingu endurskoðanda kemur fram að við núverandi aðstæður og óvissu í sjávarútvegi sé erfitt að meta virði aflaheimilda og varanlegra rekstrarfjármuna. Varðandi eignarhlutföll skipti matið á eignum þó ekki máli enda muni sömu hluthafar eiga beint og óbeint allt hlutafé í báðum félögunum í sömu hlutföllum og þeir eiga í Samherja hf. fyrir skiptingu. Það er einnig mat endurskoðanda að skiptingin rýrir ekki möguleika lánardrottna félagsins til fullnustu krafna sinna.

Sjá nánar á vef Viðskiptablaðsins.