Útflutningur á heilfrystum hausskornum ufsa frá Rússlandi til Kína mun ekki aukast á næsta ári þar sem rússneskir fiskframleiðendur ætla að beina sjónum sínum að nýjum mörkuðum.
Þetta kemur fram á vef IntraFish. Þar er haft eftir talsmanni samtaka rússneskra ufsaframleiðenda að framboð á hausskornum ufsa til Kína hafi nú náð hámarki og ekki sé skynsamlegt að auka það.
Hann segir að nauðsynlegt sé að þróa nýja markaði og auka sölu á alaskaufsa meðal annars til Afríku og á innanlandsmarkað í Rússlandi. Þá er aukin áhersla lögð á flakaframleiðslu. ,,Ákvörðun okkar er byggð á greiningu á heimsmarkaðnum sem bendir til þess að aukið framboð af laxi og hvítfiski á hefðbundna markaði muni leiða til verðlækkunar,“ segir talsmaðurinn.
Margir rússneskir frystitogarar eru aðeins útbúnir til að framleiða hausskorinn heilfrystan ufsa en í Rússlandi er verið að ýta úr vör sérstöku verkefni til að framleiða verðmætari vöru úr ufsanum.