Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, telur að með leyfi sem matvælaráðherra veitti Hval hf. til veiða á langreyðum í dag, hafi ráðherra í reynd og með ólögmætum hætti lagt stein í götu sjálfbærra veiða á langreyðum. Leyfið sem veitt sé til eins árs, gangi í berhögg við beiðni Hvals um útgáfu veiðileyfis til lengri tíma og stjórnarskrárvarinn atvinnuréttindi hlutaðeigandi fyrirtækis.

„Þá ákvað ráðherrann jafnframt að fara gegn ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og draga úr þeim fjölda langreyða sem stofnunin ráðleggur veiðar á. Ekki verður á annan veg ályktað en að með þeirri ákvörðun sé ráðherra að lýsa yfir vantrausti á Hafrannsóknastofnun og sérfræðinga þeirrar stofnunar. Það er mikið umhugsunarefni.

SFS mótmæla harðlega þessari aðför ráðherrans að mikilvægum stjórnarskrárvörðum réttindum borgaranna, vantrausti ráðherrans gagnvart sérfræðingum Hafrannsóknastofnunar og andstöðu ráðherrans við sjálfbæra nýtingu sjávarauðlindarinnar.

Hafa ber í huga að í málinu lágu fyrir jákvæðar umsagnir Hafrannsóknastofnunar, Fiskistofu og Matvælastofnunar um útgáfu leyfis til veiða á langreyðum í samræmi við beiðni Hvals þar um. Sú staðreynd gerir ákvörðun ráðherra því enn ámælisverðari.

Þá sendir ráðherra heldur kaldar kveðjur til allra þeirra sem hafa starfað af heilindum og elju við veiðar á langreyðum og vinnslu hvalkjöts um árabil í samræmi við lög og reglur og höfðu réttmætar væntingar til þess að halda því áfram.

Það er ljóst, enn á ný, að deilan um veiðar á langreyðum snýst ekki lengur um hvað sé forsvaranlegt út frá sjálfbærri nýtingu, heldur hvað fólki finnst. Það getur verið erfitt að takast á um tilfinningar, enda sýnist sitt hverjum, eins og vonlegt er. Stjórnvöld verða hins vegar, nú sem fyrr, að horfa til vísindalegra forsendna og lagalegra krafna þegar kemur að veigamiklum ákvörðunum um nýtingu auðlinda, veiða við Ísland, og láta um leið af sínum eigin tilfinningum og pólitísku skammtímahagsmunum.“