Petur Steingrund segir að Færeyingum hafi alltaf þótt Bankaþorskurinn góður til neyslu, en hann var einkum veiddur til útflutnings. Nánast engar veiðar hafi verið leyfðar árum saman.

Breska blaðið The Guardian fjallaði nýverið um fágætan þorskstofn sem einungis hefur veiðst suðvestur af Færeyjum, á svonefndum Færeyjabanka. Blaðið segir þennan bankaþorsk, sem svo er nefndur í Færeyjum, vera goðsagnakenndan. Hann sé risastór og bragðist hann mun betur annar þorskur, sé bæði feitari og þéttari í holdinu.

Einn viðmælanda The Guardian segir nánast hægt að líkja áferðinni við kjúklingakjöt. Annar segir þó að fólk myndi varla þekkja muninn, ef venjulegur þorskur væri borinn á borð í staðinn fyrir bankaþorskinn.

Þá er hann fágætur mjög, enda lítið sem ekkert veiddur þessi árin. Engar veiðiheimildir hafa verið gefnar út í rúmlega áratug, en þó má færeyska hafrannsóknastofnunin, Havstovan, veiða hann í rannsóknarskyni tvisvar á ári og þá í mjög takmörkuðu magni. Hluti aflans, sem veiddur er í þágu vísindanna, endar svo á nokkrum veitingastöðum í Færeyjum þar sem herlegheitin eru seld dýru verði: Máltíðin kostar eitthvað um 200 Bandaríkjadali, eða um 25 þúsund krónur íslenskar, að því er fullyrt er í The Guardian.

Óvissa um framtíð stofnsins

Petur Steingrund, fiskifræðingur á færeysku hafrannsóknastofunni, segir mikla óvissu ríkja um framtíð veiða úr þessum stofni, enda sé það háð því hvort hann nái sér aftur á strik.

„Satt að segja vitum við raunverulega ekki hver staða stofnsins er núna vegna þess að við fáum ósamhljóða niðurstöður.“

Í marsleiðöngrum bæði 2020 og 2021 kom mikið í trollið en á öðrum árstímum fæst lítið og önnur veiðarfæri, svo sem lína, skila litlu.

„Ef stofninn verður áfram svona lítill þá gagnast hann eingöngu færeyskum veitingastöðum sem kaupa hluta aflans af rannsóknarskipinu.“

Petur segir þennan þorsk vissulega stóran í samanburði við þann þorsk sem veiðist nær Færeyjum og til dæmis í Norðursjó, en ekki sé hann þó neitt óvenju stór miðað við þorsk á Íslandsmiðum. Að meðaltali eru þeir um 10 til 15 kíló að þyngd.

Mest var flutt út

„Færeyingum hefur alltaf þótt Bankaþorskurinn góður til neyslu. Hins vegar var þessi fiskur saltaður og fluttur út, til dæmis til Spánar, einkum fyrr á tíð. Heimamenn gátu þar með ekki nálgast hann. Færeyjabanki er harla langt undan fyrir smábáta sem kemur í veg fyrir að heimamenn geti veitt hann til eigin neyslu, og það var illa séð að sjómenn tækju þennan dýrmæta þorsk heim til sín.“

Árið 1974 voru birtar niðurstöður úr rannsókn á holdgæðum færeyska Bankaþorsksins, en strax árið 1930 höfðu komið fram vísbendingar um að hann væri frábrugðinn öðrum þorski. Rannsóknin frá 1974 staðfesti að holdgæðin væru sannarlega góð í samanburði við aðra þorskstofna. Litur holdsins er mjög hvítur og svo er mjög lítið um hringorma í honum.

Íslendingar hafa nánast aldrei veitt þennan þorsk, þótt stöku sinnum hafi smávegis slæðst í aflann.