Smábátasjómenn hafa undanfarið gagnrýnt veiðar dragnótabáta fyrir gerast helst til fyrirferðarmiklir á veiðislóðum smábáta. Gagnrýni af þessu tagi er engan veginn ný af nálinni.
Smábátaeigendum hefur lengi sviðið sárt að sjá dragnótabáta „sópa upp aflann“ á grunnslóð, en eigendur dragnótabáta kvarta undan yfirgangi smábátanna sem vilji sitja einir að veiðislóðinni.
„Við höfum í sjálfu sér enga sérstaka andúð á dragnót, en á sama tíma finnst okkur mjög óeðlilegt að vera að nota þetta togveiðarfæri á veiðisvæðum smábáta,“ segir Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda.
Hann segir þetta hafa verið afstöðu LS allt frá stofnun.
Dulbúin troll
„Málið er að í eðli fiskveiða hlýtur að vera ákveðin lógík sem felst í því að smæstir veiða næst landi og stærstir fjærst, þótt hægt sé að finna á því undantekningar í báðar áttir. En þessi stefna að vera að hleypa togskipum alveg upp í árósa finnst okkur algjörlega fyrir neðan allar hellur,“ segir Arthur, og tekur fram að hann kalli dragnótaskipin óhikað togskip.
„Þetta er ekki orðið neitt annað en dulbúin troll, þessi dragnót í dag.“
Vanþekking
Friðrik G. Halldórsson, talsmaður Samtaka dragnótabáta, segir það aftur á móti „lýsa vanþekkingu trillusjómanna“ að dragnótaveiðar eigi að stunda á meira dýpi, einhvers staðar „úti í hafsauga“.
„Þeir skilja bara ekki eðli veiðanna. Þetta er grunnveiðarfæri. Ef menn ætla að fara að veiða úti á dýpinu þá fara menn á línu eða botnvörpu.“
Engin efnisleg rök
Árið 2018 skilaði starfshópur um faglega heildarendurskoðun á regluverki varðandi notkun veiðarfæra, veiðisvæði og verndunarsvæði á Íslandsmiðum frá sér skýrslu. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að engin efnisleg rök standi til að viðhalda útgáfu svæðabundinna sérveiðileyfa til veiða með dragnót. Svæðalokanir fyrir dragnót hafi fyrst og fremst verið „til komnar vegna málamiðlunar milli hagsmunaaðila eða tilrauna til sátta milli ólíkra sjónarmiða svo sem milli landshluta, sveitarfélaga, veiðarfæra eða bátastærða.“
Starfshópurinn var skipaður fulltrúum Hafrannsóknastofu, Fiskistofu og Atvinnuvegaráðuneytisins, og fékk til sín á fundi fulltrúa bæði smábátaveiða og dragnótaveiða.
Að mati starfshópsins var einungis þörf á því að banna dragnótaveiðar á einu svæði við Ísland, en það er í Hafursfirði í Faxaflóa og þar eru uppeldissvæði skarkola.
Víða lokað
Í framhaldi af þessari niðurstöðu var ákveðið að fækka mjög þeim svæðum sem lokuð eru fyrir dragnótaveiðum, en engu að síður eru dragnótaveiðar enn bannaðar á tugum svæða víða umhverfis landið, ýmist allt árið eða hluta úr ári.
Fyrir slíku banni er skýr heimild í 6. grein laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Þar segir um dragnótaveiðar að ráðherra geti „sett almennar og svæðisbundnar reglur í því skyni að stuðla að hagkvæmri nýtingu fiskstofna, að teknu tilliti til veiða með öðrum veiðarfærum sem stundaðar eru á viðkomandi svæðum.“
Meðal annars geti ráðherra „ákveðið að leyfin séu bundin við ákveðið svæði“ eða „miðist við nýtingu ákveðinnar fisktegundar.“ Einnig getur ráðherra takmarkað fjölda, stærð eða gerð þeirra skipa sem fá leyfi til dragnótaveiða, eða sett það skilyrði að skip hafi áður stundað dragnótaveiðar.
Mótmæli
Þrátt fyrir þessar lokanir eru enn svæði þar sem dragnótaveiðar hafa verið stundaðar á sömu slóðum og smábátar veiða.
Á síðasta ári samþykkti aðalfundur LS mótmæli gegn „öllum fyrirhuguðum og nýorðnum breytingum sem rýmka fyrir veiðum með dragnót.“ Sérstaklega eigi það við Faxaflóa, Skagafjörð, Eyjafjörð, Skjálfanda og við Reykjanes. Jafnframt skorar LS á sjávarútvegsráðherra að draga til baka ákvörðun sína um afnám svæðisskiptinga fyrir dragnótaveiðar.
- Smábátasjómönnum á Skjálfanda blöskraði nálægð dragnótabáts nýverið. Aðsend mynd
Þá hefur Klettur, félag smábátaeigenda á Norðurlandi eystra, sent frá sér yfirlýsingu þar sem hafnað er „algjörlega þeirri staðhæfingu sem komin er frá Hafrannsóknastofnun að engu skipti hvaða veiðarfæri er beitt við veiðar þegar litið er til sjálfbærra veiða.“
Ofsóknir
Friðrik Halldórsson segir það samt vera ekkert annað en pólitískar ákvarðanir þegar ákveðin svæði hafa verið lokuð fyrir dragnótaveiðum.
„Þessar ofsóknir smábátasjómanna á hendur þeim sem stunda dragnótaveiðar snúast bara um sérhagsmunagæslu fyrir þá. Ef ráðherra ætlar að fara að ráðast í breytingar þá er erfitt fyrir hann að gera það samkvæmt fyrirliggjandi gögnum. Það yrði bara til þess að ganga hagsmuna ákveðins hóps,“ segir Friðrik.
Dragnótabátum hafi raunar fækkað töluvert á Íslandsmiðum frá því þeir voru um 150: „Þeir eru komnir niður fyrir 40. Þeir eru í útrýmingarhættu og ættu að fara á válista,“ segir Friðrik.
Sættir mögulegar
Reyndar er misjafnt eftir svæðum hversu hart dragnótamenn og smábátaeigendur takast á. Í Breiðafirði munu báðar veiðiaðferðirnar til dæmis stundaðar árekstralaust.
„Sums staðar hefur tekist að skapast sátt á milli manna, en það er sannarlega ekki á þessum svæðum,“ segir Arthur. „Að sjálfsögðu eiga menn að geta sest niður og komist að samkomulagi, en þeir eru nú ekki beinlínis að rétta út sáttahönd þeir sem stýra þessum skipum.“