Rússland hefur látið í ljós áhuga á að fá Smugusamninginn endurskoðaðan með það fyrir augum að Rússar fái fiskikvóta í íslenskri lögsögu.

Samkvæmt frétt rússnesku fréttastofunnar Interfax kom þetta fram á fundi Rússa og Íslendinga um fiskveiðimál á dögunum en að þeim fundi loknum var opnað fyrir áframhaldandi veiðar Íslendinga í rússnesku lögsögunni í Barentshafi. Frá þessu er skýrt á vefnum FiskerForum.com.

Í yfirlýsingu rússnesku fiskveiðistofnunarinnar, Rosrybolovstvo, segir að Rússland hafi sýnt áhuga á að fá aðgang að íslensku fiskveiðilögsögunni til veiða á loðnu, makríl, síld og öðrum tegundum. Stofnunin bendir á að Ísland hafi fengið þorskkvóta og kvóta fyrir meðafla í rússnesku lögsögunni á þessu ári samkvæmt þríhliða samkomulagi Rússlands, Íslands og Noregs og einnig samkvæmt ákvörðun fiskveiðinefndar Rússlands og Noregs.

Í frétt frá vef atvinnuvegaráðuneytisins íslenska um fundinn 13. apríl síðastliðinn var ekki minnst á ósk Rússa um kvóta við Ísland. Hins vegar var þar eftirfarandi klausa:

„Á fundinum kom fram að Rússar hafa áhuga á því að endurskoða ákveðin atriði í Smugusamningnum í aðdraganda mögulegrar endurskoðunar hans árið 2018. Jafnframt lýstu þeir yfir áhuga á því að auka samstarf milli þjóðanna á sjávarútvegssviðinu.“