Rússnesk skip hafa hætt loðnuveiðum í Barentshafi þótt kvóti þeirra sé ekki uppurinn. Ástæðan er sú að fiskvinnslustöðvar í landi ráða ekki við að vinna aflann.

Murmansk Trawl Fleet er ein þeirra útgerða sem hætt er veiðum. Forstjóri hennar, Nikolai Karlin, segir í samtali við norska sjávarútvegsblaðið Fiskaribladet/Fiskaren að af 19.900 tonna kvóta útgerðarinnar sé búið að veiða 14.000 tonn. Aðeins hafi tekist að selja 300 tonn af þessum afla, afgangurinn liggi í kæligeymslum og safni á sig kostnaði. Af þessum sökum ætlar útgerðin ekki að veiða þau 6.000 tonn sem eftir standa af kvóta hennar.

Fram kemur í máli forstjórans að á tímum Sovétríkjanna hafi loðnuveiðar numið allt að 400.000 tonnum á ári og tekist hafi að koma öllum aflanum í vinnslu, ýmist til niðursuðu, þurrkunar eða reykingar. Nú séu fiskvinnslufyrirtækin ekki lengur í stakk búin til þess að vinna þennan fisk. Jafnframt kvartar hann undan því að tillaga útgerðanna um að takmarka innflutning á loðnu hafi ekki hlotið hljómgrunn hjá stjórnvöldum. Ekki kemur fram í fréttinni hversu mikið af rússneska loðnukvótanum er óveitt.

Á sama tíma og svona gengur í Rússlandi eru Norðmenn að ljúka loðnuveiðum sínum. Í upphafi vikunnar voru aðeins nokkur þúsund tonn eftir af 245.000 tonna kvóta norskra skipa. Þar af hafa 185.000 tonn verið seld til manneldisvinnslu fyrir 1,99 NOK meðalverð á kíló, jafngildi 43 ISK. Þá hafa 50.000 tonn farið í bræðslu fyrir 1,52 NOK meðalverð á kíló sem svarar til 33 ISK. Að undanförnu hefur loðnu verið landað í hrognatöku í Noregi og hefur uppboðsverð farið upp í 3,50 NOK kílóið eða 75 ISK. Þetta kemur fram á vef norsku síldarsölusamtakanna, HÉR