Rússar saka Norðmenn um „gróft brot“ á tvíhliða samningi ríkjanna um stjórn fiskveiða í kjölfar þess að Norðmenn ákváðu að taka þátt í refsiaðgerðum Evrópusambandsins gegn rússnesku sjávarútvegsfyrirtækjunum Norebo og Murman Seafood. Ísland tekur einnig þátt í aðgerðum ESB sem beinast gegn skipum og útgerðum skipa sem talin eru tilheyra skuggaflota Rússlands. Flotann nota Rússar til að komast undan þvingunaraðgerðum Evrópusambandsins og samstarfsríkja. Skipin hafa einnig valdið alvarlegum skemmdum á neðansjávarinnviðum í Eystrasalti. Fyrr í mánuðinum staðfesti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra að verið væri að skoða að frysta fjármuni Vélfags, íslensks tæknifyrirtækis í sjávarútvegi, sem rússneski sjávarútvegsrisinn Norebo keypti skömmu áður en Rússar réðust inn í Úkraínu. Grunur er um að Norebo sé hluti af skuggaflota Rússa. Fyrirtækið hefur síðan skipt um eigendur en núverandi eigandi er talinn tengjast Vitaly Orlov, stofnanda og framkvæmdastjóra Norebo.

Rússneska utanríkisráðuneytið kallaði á sinn fund Ruben André Johansen, sendiráðsfulltrúa Noregs í Rússlandi, á þriðjudag og afhenti honum mótmæli stjórnvalda við þeim aðgerðum sem Norðmenn beita skipum sem gerð eru út af Norebo og Murman Seafood. Umræddar aðferðir felast í því að skipum félaganna er bannað að stunda veiðar í norskri lögsögu og að landa í Noregi.

Sendiráð Íslands í Moskvu var lagt niður frá og með 1. ágúst 2023 með ákvörðun þáverandi utanríkisráðherra, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur. Á sama tíma óskuðu íslensk stjórnvöld eftir því að Rússar kölluðu sinn sendiherra heim. Ísland var fyrst allra þjóða til að tilkynna um slíka lokun í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.