Sendiráð Rússa á Íslandi segir að engin áform séu um að setja Íslendinga á bannlista rússneskra stjórnvalda um innflutning á matvælum. Þvert á móti vilji Rússar auka viðskipti ríkjanna.
Í fréttum RÚV í gær sagði framkvæmdastjóri Ögurvíkur að rússneskir viðskiptavinir útgerðarinnar hefðu hætt við viðskipti af ótta við að rússnesk stjórnvöld ætli að setja Ísland á bannlistann. Orðrómur væri á kreiki á mörkuðum um að Rússar ætluðu að færa út viðskiptabann sitt á Evrópuþjóðir vegna Úkraínudeilunnar.
Alexey Shadskiy, sendiráðsfulltrúi í rússneska sendiráðinu segir ekkert til í þessu. Þetta sé orðrómur sem sendiráðið hefði fyrst heyrt í fréttum í gær.
„Sendiráð Rússlands hefur ekkert heyrt um einhverjar áætlanir um breytta stefnu rússneskra yfirvalda gagnvart Íslandi. Listi yfir lönd sem Rússar hafa beitt mótaðgerðum gegn vegna viðskiptaþvingana Evrópusambandins og Vestrænna landa er settur með tilskipun rússnesku ríkisstjórnarinnar frá 7. ágúst ef ég man rétt og listinn er tæmandi,“ sagði Alexey í viðtali í hádegisfréttum RÚV.
Ísland sé ekki á þeim lista og engar áætlanir um að bæta ríkjum á hann. Ekkert bendi til þess að samskipti Íslendina og Rússa hafi versnað.
„Nei það held ég ekki, þvert á móti erum við opnir fyrir að efla viðskiptasamband ríkjanna,“ sagði sendiráðsritarinn og bætt við að vonandi fyndu íslensk fyrirtæki marga viðskiptavini í Rússlandi og flyttu fleiri íslenskar vörur þangað. “