Skoska fyrirtækið Shetland Catch, sem starfrækir stærsta frystihús fyrir uppsjávarfisk í Evrópu, hefur áhyggjur af slakri rekstrarafkomu sem talsmenn fyrirtækisins segja stafa aðallega af banni sem Rússar hafi sett á innflutning á matvælum frá Bretlandi og öðrum vestrænum ríkjum.

Fyrirtækið, sem er með höfuðstöðvar sínar í Leirvík á Hjaltlandi, birti nýlega tölur sem sýna 199.771 punda (um 37 milljónir ISK) tap fyrir skatta á 12 mánaða tímabili fram til loka mars 2015. Fyrirtækið sýndi hins vegar 3,11 milljóna punda hagnað (um 580 milljónir ISK) árið áður.

Velta félagsins hefur einnig dregist umtalsvert saman, einkum vegna þess að innflutningsbannið hefur haft mjög neikvæð áhrif á sölu fyrsts makríls. Fyrir innflutningsbannið seldi Shetland Catch tæpan þriðjung af makrílframleiðslu sinni til Rússlands og Úkraínu.