„Auglýst var eftir skipstjóra heima til starfa fyrir Friosur í Chile og ég bara stökk á þetta. Árið var 1993 og um svipað leyti kom Grímur hingað líka til starfa,” segir Þór Einarsson, skipstjóri á Cabo de Horno, einum af frystitogurum Pesca Chile, sem er dótturfélag Friosur. Það síðarnefnda gerir út tvo togara og tvo línubáta. Einn togarinn er gerður út til veiða á ljósátu við Suðurskautslandið.

Svo vildi til að blaðamaður var í þriggja vikna leyfi í höfuðborginni, Santiago de Chile, og nýtti tækifærið til að forvitnast um hagi Íslendinganna tveggja hjá Friosur sem nú hafa búið í Chile í yfir þrjá áratugi og fest þar rætur. En maður skutlast ekki suður til Punta Arenas í bíl frá Santiago eins og ekkert sé. Þangað eru rúmlega 3.000 kílómetrar og uppgefinn aksturstími er tæpar 36 klukkustundir. Strandlengja Chile öll er 6.435 km. Það var því flogið með LATAM flugfélaginu chileska og flugtíminn þó ekki nema rúmar þrjár klukkustundir.

Það var kalt í Punta Arenas, eiginlega íslenskt vorveður, í þessari tæplega 200.000 manna borg við Magellansundið þar sem vetur er þegar sumar er á Íslandi og sumrin þar eru heit. Grímur Ólafur Eiríksson, útgerðarstjóri Friosur, og Þór skipstjóri sóttu blaðamann á hótelið. Nokkrar tilfæringar þurfti til að koma honum inn á hafnarsvæðið, þar sem tveir af togurum Friosur lágu við festar, þ.e. Friosur XI og Cabo de Hornos, skip Þórs. Þór býr sjálfur í Concepción með chileskri eiginkonu sinni og börnum, um 2.000 km norðan við Punta Arenas. Grímur býr í Coyhaique með eiginkonu sinni, Bryndísi Sveinbjörnsdóttur. Dætur þeirra tvær og sonur lærðu í Santiago og búa þar. Dæturnar Rannveig og Isabel eru tannlæknar og Friðrik Máni verkfræðingur.

Þór og Grímur í brúnni á Friosur XI.
Þór og Grímur í brúnni á Friosur XI.

Puerto Chacabuco

Heimahöfn Friosur er í Puerto Chacabuco og þar er líka önnur af tveimur vinnslum fyrirtækisins þar sem unnar eru afurðir úr lýsing (hake). Þriðjungur afurðanna er seldur til Spánar, jafnt bitar og ferskur og ferski fiskurinn selst þar á svipuðu verði og þorskur. Hinir tveir þriðjungarnir skiptast jafnt á milli innanlandsmarkaðar í Chile og Póllandi. Til Spánar fara afurðirnar ferskar með flugi. Þá er þeim trukkað til Buenos Aires í Argentínu sem tekur um sólarhring og flogið þaðan með afurðirnar í frauðplastkössum til Spánar þar sem toppverð fæst fyrir þær. Í vinnslunni er líka unninn hokinhali (hoki) og uppsjávarfiskurinn reineta (Brama Australis). Þar vinna allt að 200-350 manns, misjafnt eftir árstíð.

Langenes verður Friosur XI

Friosur XI er nýtt skip í flota fyrirtækisins. Það var keypt frá Noregi þar sem það hét Langenes. Það kom til Chile í mars eftir slipp á Spáni í janúar og hluta af febrúar. Í Noregi var hann gerður út sem frystitogari en Grímur stendur í ströngu með sínum mönnum að breyta honum í ísfisktogara. Til stóð að gera það á Spáni en ákveðið var að klára aðeins slipp þar og taka síðan breytinguna í Chile. Friosur XI er 56 m á lengd og 12,4 metrar á breidd og var smíðaður 1986 í Liaaen skipasmíðastöðinni og hannaður af Skipsteknisk í Noregi. Skipinu var því siglt frá Noregi suður eftir Atlantshafi en þó ekki í gegnum Panama-skurðinn eins og eðlilegast hefði verið þegar siglt er frá Noregi. En eftir að komið var til Spánar þá er vegalengdin orðin svipuð fyrir Hornhöfða og í gegnum Panamaskurðinn til Chile. Þar sem í dag er upp undir 20 daga bið til að komast yfir í Kyrrahafið um Panamaskurðinn var tekin ákvörðun um að sigla beint fyrir Hornhöfða. Í Panamaskurðinum er auk þess umferðin mikil og afkastagetan lítil vegna lágrar vatnsstöðu í Gatun og Alajuela stöðuvötnunum sem gerð voru m.a. með því að stífla ána Chagres. Friosur XI verður gerður út til veiða á uppsjávarfisknum reinetu (Brama Australis) auk annarra tegunda. Veiðar á reinötu hafa aukist mikið hjá fyrirtækinu síðustu árin meðal annars vegna ágætrar innanlandssölu í Chile á þessum fiski til manneldis.

Cabo de Horno er 80 metra langur frystitogari og 13,4 metra breiður. Þór segir hann gott skip en vélaraflið mætti vera meira. Hann heitir eftir Hornhöfða þar sem veður eru oft válynd. „Ég hef fiskað þar í mörg ár,“ segir Þór sem var á Andey SF áður en hann hélt til Chile. Hann segir túrana vera 30-40 daga. Meðalaflinn er í kringum 500 tonn af afurðum í hverjum túr. Uppistaðan er lýsingur, (merluza austral og merluza de cola).

Friosur XI. MYND/AÐSEND
Friosur XI. MYND/AÐSEND

Saga samskiptanna

Fyrstu samskipti Friosur við Íslendinga hófust þegar núverandi aðaleigandi Friosur, Jose Luis del Rio, kynntist íslenska fyrirtækinu IceCon í gegnum Pál Gíslason á sjávarútvegssýningunni í Boston. Friosur var um þær mundir að leita sér að togara og Páll Gíslason og Sverrir Guðmundsson beittu sér fyrir því að Karlsefnið yrði keypt til Chile. Með Karlsefninu komu troll sem voru mun betri en þau kóresku troll sem voru í notkun hjá flota Friosur. Karlsefnið fékk heitið Friosur IV í Chile. Menn sáu grund[1]völl fyrir frekara samstarfi. 1993 keypti Friosur Elínu Þorbjarnardóttur ÍS sem lá kvótalaus við bryggju hjá Granda á þeim tíma. Grandi hafði keypt togarann til úreldingar 1992. Í framhaldinu var gerður þróunarsamningur milli fyrirtækjanna. Grímur var ráðinn verkefnastjóri og Þór skipstjóri og auk þess voru tveir vélstjórar ráðnir, þeir Jón Einarsson og Jón Erlingsson. Grímur segir að á þessum árum hafi um 70% af útflutningstekjum Chile verið vegna námuvinnslu en hlutfall útflutningstekna Íslendinga var þá svipað af sjávarútvegi. Chilemenn töldu að Íslendingarnir hefðu eitthvað fram að færa. Þór tók við Elínu Þorbjarnardóttur í Chile. Skipið var í fremur slæmu standi til að byrja með en eftir lagfæringar fór það að fiska ágætlega miðað við togkraft. Í Chile fékk Elín heitið Friosur VII. Greiðslan fyrir fyrir skipið var nokkurn veginn hlutafé Granda í Friosur. Þór færði sig svo yfir á Friosur VI og fór að fiska mikið. Skipið var eftir sömu teikningu og Ögri og Vigri og vantaði ekki togkraftinn frekar en í þá. Fleiri skip bættust í flotann og ágætur gangur var í rekstri Frisour en september 1994 sökk Karlsefnið (Friosur IV) undan strönd Chile eftir að hafa fengið þar risahal. Skipstjóri í túrnum var Albert Haraldsson. Eftir þann atburð keypti Friosur tvö systurskip frá Kanada (Nýfundnalandi), Friosur VIII og Friosur IX (sem áður hétu Zandvoort og Zandberg) af Fishery Products 1994. 1999 var Friosur VI skipt út fyrir Friosur X sem var keyptur af National Sea Cooperacion í Halifax.

Humboldt risasmokkfiskurinn.
Humboldt risasmokkfiskurinn.

Humboldt-smokkfiskurinn

„Árið 2003 urðum við varir við margföldun á magni risasmokkfisks í lögsögu okkar hér inni á veiðisvæði fyrir framan Talcahuano, það er að segja á Bio Bio-svæðinu. Þessi risasmokkfiskur breytti öllu dæminu hjá okkur. Við vorum með fimm skip í rekstri þá, tvö allt árið í Aysen sýslu sem lönduðu merluza austral (lýsing) og merluza de cola (langhala) í Puerto Chacabuco-vinnsluna, tvö sem lönduðu allt árið í Talcahuano og veiddu merluza de Gayi (lýsing) og fimmti ísfisktogarinn veiddi hálft árið alfonsino (djúpkarfategund) og orange roughy (búri) og hinn hlutann á vertíðinni merluza austral og merluza cola niður í Aysen. Það liðu ekki nema 12 ár eftir þessa gríðarlegu fjölgun á risasmokkfiski að við fórum úr fimm ísfiskskipum og einu vinnsluskipi í tvö ísfiskskip. Við sáum þegar risasmokkfiskurinn kom inn á svæðið þar sem Þór var að veiða úti fyrir Concepión sem er í Mið-Chile. Á næturnar er torfan um það bil 60-80 metra þykk og á daginn fer hún niður að fiskitorfunum og leggst á þær. Veiðin í Chile á merluzu gayi var 110.000 tonn árið 2002 og með nákvæmlega sama flota og sóknardögum fór aflinn niður í 36.000 tonn á einu ári, þ.e. árið 2003,“ segir Grímur.

Þór bætir við að þessi skepna, risasmokkfiskurinn, þurfi að éta þyngd sína á hverju degi. En þessi magnaukning hans í chilesku lögsögunni leiddi til þess að hefðbundnir nytjastofnar hrundu. Grímur er fulltrúi Friosur hjá fiskistofu Chile og hefur því gögn til samanburðar. Hann segir að frá 1980 til 2000 hafi ársveiðin á merluza de Gayi verið á bilinu 90-130.000 tonn. Í framhaldi af hruninu 2003 var settur á kvóti á þessar veiðar sem var 30.000 tonn og hefur verið óbreyttur síðan. Skömmu síðar varð sömu plágu vart enn sunnar í Chile og lagðist þar á aðrar tegundir af sama þunga, aðallega á merluza de Cola sem fór líka úr rúmum 100.000 tonn[1]um á ári í um 30.000 tonn á ári.

Hrun í makrílstofninum

Um svipað leyti og Grímur og Þór fóru til Chile, voru menn farnir að líta uppsjávarveiðar hýrum augum, einkum veiðar á makríl. Umræða var líka hafin um kvótasetningu makríls og allra helstu tegunda í Chile. Fyrirtæki fóru að fjárfesta grimmt í uppsjávarskipum til að afla sér veiðireynslu áður en kæmi að kvótasetningu. Á árunum 1993-1996 fóru veiðar á makríl úr milljón tonnum í þrjár milljónir tonna. Þessi ofboðslega veiði gekk mjög nærri makrílstofninum og hann hrundi. Veiðin fór niður í 600.000 tonn árið 1997.

„Makríllinn kemur inn í lögsöguna hérna syðst í landinu í júní, fer með ströndinni allt norður til Iquique nyrst í landinu og út úr lögsögunni í nóvember. Hann er í sex mánuði að éta og fita sig innan lögsögunnar. Þetta er ekkert ósvipað því sem gerðist á Íslandi þar sem hugsanlega er talið að makríllinn hafi haft áhrif á humarstofninn og sandsílið hvarf allavega um tíma. En eftir hrun makrílstofnsins birtist hérna skyndilega fiskur í miklu magni sem kallast reineta sem er uppsjávarfiskur sem nýttur er eingöngu til manneldis. Flotinn í Chile hefur fiskað 30-40.000 tonn af reinetu á ári undanfarið. Smábátaeigendur veiða þó 90% af kvótanum en Friosur er eina stórútgerðin sem veiðir þennan fisk. Um svipað leyti kom svo risasmokkfiskurinn inn í lögsöguna, svokallaður Humboldt smokkfiskur.“

Vandamálið við risasmokkfiskinn er að hann er ódýrt hráefni og ekki mjög tekjuskapandi. Veiða þarf um 100 tonn á dag til að útgerðin nái endum saman og verra er að allir aðrir nytjastofnar hafa hrunið af hans völdum.

„En þar sem magnið er mikið er ekki vandamál að ná endum saman. Smokkfiskurinn ætti í raun að vera mikil búbót í þessum aflabresti og kvótaniðurskurði sem hefur orðið í hefðbundnum tegundum sem risasmokkfiskurinn er valdur að. Smábátaeigendur halda að meðaltali um 50% af heildarkvóta í hefðbundnum fisktegundum og kom þessi aflabrestur því ekki síður niður á þeim. Þeir kröfðust þess í framhaldinu af stjórnvöldum að fá að standa einir að veiðum á risasmokkfiski og það var látið eftir þeim. Fyrst, 2006 til 2018, fengu smábátar undir 18 metrum 80% kvótans og eftir það var smokkfiskkvóti stórútgerðarinnar alveg skorinn niður. Þetta hefur haft þau áhrif að ekkert dregur úr göngum risasmokkfisks á hin hefðbundnu mið. Af þeim sökum er erfitt að sjá að kvótaniðurskurður undanfarinn áratug skili árangri.“

Friosur IX siglir inn til Puerto Chacabuco.
Friosur IX siglir inn til Puerto Chacabuco.

Ágæt fiskveiðistjórn en mest á yfirborðinu

Grímur segir einu lausnina þá að efla til muna veiðar á risasmokkfiski til að berjast gegn plágunni. Humboldt-smokkfiskurinn er seldur til manneldis aðallega til Kóreu og annarra Asíulanda. Hann er þó vandmeðfarinn í vinnslu því helst þurfi að sjófrysta hann eða koma honum kældum í vinnslu á innan við sólarhring eigi eitthvað að fást fyrir hann.

„Það er ágæt stjórn og skipulag á fiskveiðum í Chile þó það sé aðallega á yfirborðinu. Allt frá 2003 hefur verið lögbundið að hafa staðsetningarbúnað í öllum skipum stærri en 18 metrum. Búnaðurinn sendir á 15 mínútna fresti staðsetningu, stefnu og ferð skipsins til fiskistofu og landhelgisgæslu, og frá árinu 2020 er skylt að vera með frá 7-9 myndavélar um borð í öllum skipum nema smábátum sem taka upp stanslaust á 20 terabæta harða diska um borð í skipunum, allt frá því að skipið fer úr höfn þar til það kemur í land. Ef eitthvað af þessum búnaði bilar og veiðum er ekki hætt er háum sektum beitt og veiðileyfasviptingum jafnvel við ítrekuðum brotum. Einnig hefur allur afli verið vigtaður á bryggjunni af fiskistofu og gefin út vigtunarnóta á staðnum áður en aflinn er keyrður í hús. Þetta á jafnt við um vinnsluskip og ísfiskskip. Annað gildir um skip undir 18 metrum að lengd sem geta landað í fjölmörgum höfnum án eftirlits. Þeir eru jafnvel hvorki með staðsetningarbúnað né myndavélar um borð en hafa þó leyfi og burði til að veiða um og yfir 50% af kvótanum. Stjórnvöld eru klárlega að gera mistök með því að viðurkenna ekki risasmokkfiskinn sem plágu í lögsögu Chile. Á tíu árum hefur veiði merluza de Cola og merluza de Gaiy farið niður um 60% og ástandið er ekkert að skána.“

El Niño og Humboldt-straumurinn

Risasmokkfiskurinn hefur alltaf verið í lífríki sjávar við strendur Chile en aldrei áður í jafn miklu magni. Fiskifræðingar hafa ekki skýringar á reiðum höndum. Á þessum slóðum hafa líka sveiflurnar milli veður- og haffræðilegu fyrirbæranna El Niño og La Niña verið að styttast. Þegar El Niño ríkir er Humboldtstraumurinn, kaldur, saltlítill hafstraumur sem streymir í norður eftir vesturströnd Suður-Ameríku frá suðurenda Chile að norðurhluta Perú, afar veikur. Í eðlilegu árferði skapar Humboldt-straumurinn mikið uppstreymi næringarefna frá botninum eftir vesturhluta Suður-Ameríku og er undirstaða lífríkis í hafinu á stóru svæði. El Niño veldur því að tegundir eins og sardína, ansjósa og makríll dreifast yfir mjög stórt svæði og eru illveiðanlegar í miklu magni. Selir drepast líka í miklu magni við stendur landsins vegna fæðuskorts þegar „Strákurinn“ nær sér á strik. Friosur gerði út frystitogara frá 2004 til 2012 á syðsta hluta Chile þar sem vinnsluskip hafa leyfi til að vinna frá 44.10 gráðu suðlægrar breiddar og suður eftir. Strax 2008 fannst fyrir minni veiði á merlusa de Cola í suðurhluta Chile og því var sjálfhætt þar. Skipið var því selt til Nýja-Sjálands 2014.

Tilraun til sjós sem heppnaðist

Um borð í þessu skipi gerðu þeir félagar Þór og Grímur nýja tilraun. Þór var skipstjóri á Ocean Dawn, en svo hét skipið allan þann tíma sem það var gert út í Chile. Skipið hafði ekki náð sama vinnslumagni og það hafði gert í Nýja-Sjálandi með sama fisk, þ.e.a.s. merluza de Cola. Þar hafði það náð 40 tonnum af frystum afurðum á sólarhring en í Chile aldrei komist yfir 30 tonn á sólarhring. Trúlega var þetta vegna þess að fiskurinn var ekki nema 1,2 kg að meðalþyngd í Chile en 2,2 í Nýja-Sjálandi. Flöskuhálsinn var í pökkuninni á fisknum því ekki var skortur á tækjabúnaði. Þar voru Baader 212 og 192 flökunarvélar sem geta flakað hvor um sig yfir 120 fiska á mínútu.

„Lausnin fólst í því að bjóða pökkunarfólki í báðum frystihúsunum í viðtöl. Það endaði með ráðningu á 18 konum sem skiptust á að vera um borð í 12 daga í senn. Á öðrum degi á sjó náðum við að færa 30 tonna vinnslugetu upp í 40 tonn á sólarhring. Þetta var í fyrsta skipti sem konur voru ráðnar um borð í skip í þessum mæli í Chile og trúlega í S-Ameríku. Með þessu náðist mjög góður andi um borð, betri þrifnaður og þessar tvær kvartanir um gæði sem við fengum venjulega, duttu algerlega út.“

Síðustu tvo túra vorum við að veiða minni smokkfisk (Ilix) sem er mun verðmeiri afurð, fyrir utan 200 mílur í Argentínu á alþjóðlegu hafsvæði. Þarna eru Kínverjar, Kóreumenn og Spánverjar stórtækir í veiðum,“ segir Þór. Vegna aflabrests í hefðbundnum tegundum í kjölfar risasmokksplágunnar leita menn nýrra tegunda og hafa fundið hana í reineta. Hún er þó alls ekki auðveld viðureignar í veiðum. Þar sem hún er eins og flatfiskur sem syndir upp á rönd er flatarmál hennar lítið til að geislar frá fiskleitartækjum berist til baka upp í brú. Þetta er torfufiskur og það sem gerir hann enn erfiðari viðureignar er skrápur hans sem líkist helst hákarlaskráp. Nái geislar að lenda á reinetu eiga þeir til að drukkna í skrápnum. Þór gerir þetta á þann veg að hann fer í lóðið á gulldeplu sem er helsta fæða reinetu. Reineta skapar þannig umtalsverðar tekjur og var ein af ástæðum þess að Friosur XI var keyptur og nýtir hann gamalt veiðileyfi Friosur VIII sem hafði verið seldur til Argentínu 2019.

Tilboð til félagsmanna stéttarfélaga

Dótturfyrirtæki Friosur, Pesca Chile er staðsett í Punta Arenas. Það gerir út Cabo de Horno þar sem Þór er skipstjóri í dag. Það gerir einnig út Antartic Endover á ljósátuveiðar í lögsögu Suðurskautslandsins og tvo línubáta, Puerto Toro og Puerto Ballena, sem veiða tannfisk (Bacalau Profundidad, Chilean Sea bass). Þetta er stór, svartur fiskur með mjög hvítt og eftirsóknarvert fiskhold. Hann heldur sig á 1.000-2.000 metra dýpi við strendur Chile, Argentínu og á suðurhveli til Suður-Íshafs. Grímur segir ljósátuveiðarnar líka mikinn iðnað en þar hafi Norðmenn tekið forystu undir stórsókn fyrirtækja norska útgerðarmannsins Kjell-Inge Røkke. Þau hafi tryggt sér einkaleyfi fyrir framleiðslu olíu úr ljósátu. 75% af framleiðslunni eru nýtt sem bætiefni í fóður fyrir laxeldi víða um heim. Undanfarin ár hefur Friosur opnað verzlanir sem selja frystan fisk í Punta Arenas, Coyhaique og Santiago. Það þótti saga til næsta bæjar árið 2019 þegar Friosur bauð öllum félögum úr tveimur stéttarfélögum að gerast meðeigendur. Samningur um það var gerður um að hver og einn af þessum 189 félagsmönnum fái greiddan 1/189 hluta af 20% af árshagnaði næstu 10 árin. 95% af þessum greiðslum þarf að nýta til að kaupa hluta í Friosur og 5% fara í sameiginlegan sjóð verkalýðsfélaganna. Allir félagsmenn tóku þátt í þessu og líta á þessa ráðstöfun sem hluta af sínum framtíðarlífeyri.