Vísindamenn telja sig hafa fengið staðfestingu á því að fyrir 160 milljónum ára hafi risafiskur lifað í hafinu sem gat náð meira en 16 metrum að lengd, að því er fram kemur á vefnum fis.com. Fiskurinn dó út á sama tíma og risaeðlurnar.

Reyndar var vitað um tilvist þessa fisks allt frá seinni hluta 19. aldar er steingervingar fundust af honum. Var honum gefið nafnið Leedsichthys. Hins vegar var ekki hægt að áætla stærð fisksins þar sem steingervingar voru svo fáir og brotakenndir. Nú hafa fleiri steingervingar komið í ljós. Vísindmönnum við háskólann í Bristol hefur tekist að raða þessum brotum saman og metið stærð fisksins meðal annar út frá staðsetningu á tálknum.

Hér er um beinfisk að ræða sem gat náð 40 ára aldri. Hann var um 9 metrar að lengd við 20 ára aldur en fullvaxinn varð hann 16,5 metrar að lengd. Þyngdin var um 21,5 tonn sem samsvarar þyngd þriggja Afríkufíla. Munnur fisksins var einstaklega stór og var hann eins og ryksuga í sjónum, át allt sem að kjafti kom, jafnt þörunga sem smáfiska, rækju og marglyttu.