Færeyska línuskipið Stapin FD 32 landaði nú á dögunum um 78 tonnum af bolfiski í heimahöfninni Toftir. Skipið var að veiðum suður af Íslandi en nokkur færeysk skip hafa heimild til að veiða ákveðið magn hér við land.

Aflaverðmæti í túrnum var um 835 þúsund færeyskar krónur eða, 17,4 milljónir íslenskar. Veiðiferðin hófst 14. október og landaði Stapin afla sínum um miðja síðustu viku. Túrinn vakti athygli í Færeyjum og fjölmiðlar þar segja að skipið hafi gert “rimmartúr undir Íslandi”, sem útleggst sem mokveiði á Íslandsmiðum.