Gagnrýnisraddir hafa verið háværar á Grænlandi eftir að heimastjórnin ákvað að úthluta Royal Greenland, sem er 100% í eigu grænlenska ríkisins, 5.515 tonna viðbótarþorskkvóta og 400 tonna karfakvóta á þessu ári gegn því að fyrirtækið reisi nýja fiskvinnsluverksmiðju í Tasiilaq á austurströnd Grænlands
Þessi ráðstöfun heimastjórnarinnar minnir eilítið á fjárfestingakvótastefnuna í Rússlandi þótt í miklu minni mæli sé. Í Rússlandi bauðst sjávarútvegs- og fiskvinnslufyrirtækjum viðbótarkvóti gegn smíði nýrra skipa eða endurnýjun eða byggingu nýrrar fiskvinnslu í landinu. Þetta hafði þau áhrif að hrundið var af stað smíði á fjölda nýrra skipa og mikilli uppbyggingu í fiskvinnslu.
Framkvæmdir á þessu ári
Verksmiðjan í Tasiilaq á að vera nokkurs konar byggðaráðstöfun í hinu afskekkta Sermersooq héraði í suðausturhluta Grænlands þar sem áður hét Angmassalik. Royal Greenland upplýsti nýlega að verið væri að undirbúa útboðsgögn vegna verksmiðjunnar en hvorki sé ljóst hvað hún komi til með að kosta né hvenær hún rísi.
Lars Nielsen, framleiðslustjóri Royal Greenland, segir í samtali við grænlenska vefmiðilinn Sermitsiaq.ag að verksmiðjan rísi ekki á þessu ári en vonir séu bundnar við að hún muni taka við hráefni strax á næsta ári. Ráðgert sé þó að framkvæmdir hefjist á þessu ári.
Unnið í vinnsluskipum?
Skilyrði heimastjórnarinnar fyrir kvótaúthlutuninni er að Royal Greenland finni lausnir fyrir vinnslu og sölu á afurðunum úr þessari sérstöku kvótaúthlutun þar til verksmiðjan verður starfhæf. Ein af lausnunum eru vinnsluskip. Fyrirtækið eigi á hættu að missa þennan kvóta verði þessu skilyrði ekki fullnægt. Royal Greenland hefur sagt að áform séu uppi um vinnslu á grálúðu og þorski í nýju verksmiðjunni í Tasiilaq. Heimastjórnin hafði áður upplýst að verksmiðjan myndi skapa sjö heilsárs störf í bænum. Verðmæti auka þorskkvótans til Royal Greenland eru sögð nema í kringum 200 milljónum danskra króna, um 4 milljörðum ÍSK. Royal Greenland gerir út tíu skip, þar á meðal frystitogara, uppsjávarskip og línuskip.