Selveiðar Norðmanna virðast vera að lognast út af vegna þess að endar ná ekki saman í útgerðinni. Aðeins einn bátur, Havsel, fór til þessara veiða í fyrra og stundaði þær í Vesturísnum svokallaða sem er svæðið vestan Jan Mayen og norðan Íslands. Enginn sótti í Austurísinn sem er nyrst og austast í Barentshafi.

Núna hafa að minnsta kosti fjórar útgerðir lýst áhuga sínum á því að stunda selveiðar í ár. Norsk stjórnvöld hafa tilkynnt að selaútgerðir verði styrktar um samtals 7,5 milljónir norskra króna eða jafnvirði 170 milljóna íslenskra króna á þessu ári. Samtök norskra útgerðarmanna telja hins vegar að tvöfalda verði upphæðina, þannig að hver þeirra fjögurra báta sem áhuga hafa á veiðunum geti fengið jafnvirði 70 milljóna íslenskra króna í styrk.

Auk styrksins til útgerðar bátanna veitir ríkið styrk að fjárhæð 3 milljónir norskra króna (60 milljónir ISK) til þeirra sem taka á móti afurðunum.

Samtök norskra útgerðarmanna minna á að selir og hvalir sæki fast í fiskistofnana og því þurfi að hafa hemil á fjölgun þessara sjávarspendýra með veiðum.