Fiskur sem talinn er vera rétt rúmlega 200 ára gamall veiddist úti fyrir ströndum Alaska nú á dögunum. Hann er sagður vera elsti fiskur sem veiðst hefur í heiminum. Ef þessi aldursgreining er rétt þá leit fiskurinn „dagsins ljós“ í fyrsta sinn nokkrum árum fyrir orustuna við Waterloo árið 1815, að því er fram kemur á vefnum Fishupdate.com.

Til að tengja tilurð fisksins íslenskum atburðum þá gæti hann hafa tekið sinn fyrsta sundsprett um það leyti sem Jörundur hundadagakonungur lét til sín taka á Íslandi árið 1809.

Hér er um karfategund að ræða (enska: Shortraker Rockfish, latína:Sebastes borealis) sem lifir í norðanverðu Kyrrahafinu. Tegundin hefur ekki fengið íslenskt nafn svo vitað sé en er náskyld íslenska djúpkarfanum.

Veiðimaðurinn, Henry Liebman, veiddi karfann á um 250 metra dýpi um tíu mílur úti af Sitka í Alaska. Fiskurinn var um 18 kíló að þyngd og um 105 sentímetrar á lengd.

Sýni hafa verið tekin úr fiskinum og send til nákvæmrar aldursgreiningar en vísindamenn telja hann vera að minnsta kosti 200 ára. Elsti karfi sem veiðst hefur hingað til er sömu tegundar og reyndist hann vera 117 ára gamall. Sá fiskur var tæpum 25 sentímetrum styttri en fiskurinn sem Liebman veiddi.