Dönsk og norsk skip hafa verið á sandsílaveiðum í Norðursjó að undanförnu og hefur veiðin verið mjög góð að sögn skipstjóranna, betri en oft áður. Löng löndunarbið hefur myndast hjá fiskimjölsverksmiðjum bæði í Danmörku og Noregi.
Danir hafa yfir að ráða næstum öllum ESB-kvótanum af sandsíli og mega veiða tæplega 340.000 tonn. Norðmenn eru með 60.000 tonna kvóta í norska hluta Norðursjávar og hafa auk þess leyfi til að taka 20.000 tonn á Doggerbank í ESB-lögsögunni. Mestur hluti danska kvótans er einnig veiddur á Doggerbank, en þau fiskimið liggja um miðbik Norðursjávar milli Danmerkur og Englands.
Norska rannsóknaskipið Johan Hjort hefur verið við sandsílarannsóknir undanfarnar vikur. Leiðangursmenn staðfesta í samtali við Fiskeribladet/Fiskaren að mikið hafi fundist af sandsíli á veiðislóðinni en að uppistöðu til sé þar um að ræða tveggja ára fisk og eldri. Hins vegar hafi það valdið vonbrigðum hve lítið hafi sést af eins árs sandsíli.