Afar góð kolmunnaveiði hefur verið á gráa svæðinu suður af Færeyjum að undanförnu. Hákon EA landaði 1.600 tonnum í Neskaupstað í fyrradag og Vilhelm Þorsteinsson EA er á leiðinni þangað með um 3.200 tonn. Barði NK kom til Seyðisfjarðar í morgun með 2.100 tonn.
Rætt er við Þorkel Pétursson skipstjóra á heimasíðu Síldarvinnslunnar.
„ Hjá okkur er allt gott að frétta og staðreyndin er sú að veiðin gerist vart betri. Við vorum sunnarlega á hinu svonefnda gráa svæði og vorum 36 tíma að fylla skipið. Þetta voru fimm hol og var ávallt dregið í kringum fjóra tíma. Aflinn var um 100 tonn á togtíma. Hér um borð eru allir glaðir, það er ekki annað hægt,” segir Þorkell.
Ánægðir með hráefnið
Verksmiðjustjórar Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði og í Neskaupstað eru ánægðir með hráefnið sem skipin koma með að landi. Eggert Ólafur Einarsson, verksmiðjustjóri á Seyðisfirði, segir að vinnslan á kolmunnanum gangi vel.
„Þetta gengur eins og í sögu. Skipin koma með gott hráefni að landi, enda eru þau fljót að fá í sig og kæla aflann vel. Síðan vorum við að ljúka við að skipa út 2.300 tonnum af mjöli í nótt,” segir Eggert Ólafur.
Hafþór Eiríksson, verksmiðjustjóri í Neskaupstað, tekur undir með kollega sínum á Seyðisfirði. „Vinnslan á kolmunnanum um þessar mundir gengur einkar vel enda um frábært hráefni að ræða. Við höfum verið að prófa nýjan búnað í verksmiðjunni og það hefur í reynd gengið eins og í sögu. Ég er rosalega ánægður með hvernig þetta kemur út og afköstin eru glimrandi. Nú var verið að ljúka við að tengja saman nýja og eldri hluta verksmiðjunnar og þetta mun skila okkur öruggari rekstri auk afkastaaukningar,” segir Hafþór.