„Ég er með annað hús í Mölvík þar sem ég hef verið með fiskþurrkun. Það er talsvert minna og alls ekki eins gott og Stakkavík var. En meiningin er sú að fara í það núna að brjóta gólf og gera húsið hæft til vinnslu á fiski. Þetta er samt sæmilega stórt hús og, svona til þess að gera, alveg hægt að vinna þar fisk,“ segir Hermann Ólafsson eigandi Stakkavíkur í Grindavík.

Hermann Ólafsson. FF MYND/ÞORGEIR
Hermann Ólafsson. FF MYND/ÞORGEIR

Hann segir að hann tæki ekki sama magn í gegnum húsið í Mölvík enda einungis einn þriðji af stærð hins hússins. Hugmyndin er að halda uppi svipaðri vinnslu með sömu vélunum sem yrðu fluttar í húsið í Mölvík. Hann bendir líka á að nægt er landrýmið þarna og þess vegna hægt að stækka húsið.

„Ég geri mér vonir um að geta hafið vinnslu í september. Núna liggur fyrir að pakka öllum vörunum í Mölvík og tæma húsið. Í framhaldinu þarf að laga gólfin og gera og græja og mála og sjæna. Ég gef mér sumarið í þetta,“ segir Hermann.

Stakkavík fékk afhentan nýjan stálbát fyrr á árinu, Guðbjörgu GK, en hann hefur legið í höfn í Njarðvík. Hermann segist taka hann í drift á nýju kvótaári.

Guðbjörg GK 9. FF MYND/JÓN STEINAR
Guðbjörg GK 9. FF MYND/JÓN STEINAR