Skip sem skráð eru í Reykjavík eru með mestan kvóta á fiskveiðiárinu 2009/2010, eða 14% kvótans miðað við þorskígildi. Vestmannaeyjar eru í öðru sæti með tæp 11% kvótans og Grindavík í því þriðja með tæp 10%.
Þessar upplýsingar má sjá á vef Fiskistofu ( www.fiskistofa.is ) þar sem birtur er listi yfir kvótastöðu allra heimahafna skipt eftir fisktegundum, skipaflokkum og þorskígildum.
Akureyrarhöfn er í fjórða sæti með tæp 5% kvótans í þorskígildum. Þessar fjórar hafnir hafa verið í efstu sætum undanfarin ár en röðin og vægi í heildarkvóta hefur breyst. Kvótaárið 2006/2007 var Akureyrarhöfn til dæmis í þriðja sæti með tæp 10% kvótans í þorskígildum en Reykjavík var þá í fjórða sæti með 8,5%.
Skip skráð í Grindavík hafa mestan þorskkvóta á fiskveiðiárinu 2009/2010, eða 14.133 tonn. Vestmannaeyjar hafa mestan ýsukvóta eða 8.364 tonn og Reykjavík er með mestan karfakvóta, 16.718 tonn og mestan ufsakvóta 8.444 tonn.
Þótt hafnir missi hlutfallslegan kvóta þarf það ekki að þýða að kvóti hafi verið seldur úr byggðarlaginu. Breytingar milli ára í vægi hafna má meðal annars skýra með því að útgerðir sem eru með starfsstöðvar á fleiri en einum stað á landinu geta fært skráningar skipa á milli heimahafna. Vægi hafna getur einnig breyst eftir því hvort kvóti í einstökum tegundum er aukinn eða dreginn saman. Samdráttur í ýsukvóta að þessu sinni kemur til dæmis illa við Vestmannaeyjar. Þorskígildisstuðlar breytast einnig á milli ára og það hefur áhrif á hlutfallslegan samanburð.
Einnig er rétt að hafa í huga að kvóti eftir heimahöfnum segir ekki alla söguna um útgerð og fiskvinnslu á staðnum. Allur gangur er á því hvort skip landi afla sínum í heimahöfn eða ekki. Þá er afli skipa oft fluttur frá löndunarhöfn, hvort sem það er heimahöfn eða önnur höfn nær helstu fiskimiðum, til vinnslu vítt og breytt um landið.