Á árinu gekk Hampiðjan hf. frá kaupum á öllu hlutafé í dótturfélaginu Fjarðanetum. Tilgangur kaupanna var að undirbúa flutning á starfsemi Hampiðjunnar á Íslandi í eitt félag. Nafni Fjarðarneta verður breytt í Hampiðjan Ísland ehf. og sá hluti starfsemi Hampiðjunnar sem snýr að veiðarfæragerð, sölu og þjónustu á Íslandi verður færður inn í það félag.
Áætlað er að breytingarnar komi til framkvæmda þann 1. janúar 2019, en frá þessu segir á heimasíðu fyrirtækisins.
„Með þessari breytingu verður skýrari fókus á sölustarfsemi á Íslandi og betri og heildstæðari þjónusta við viðskiptavini félagsins. Samhliða þessu verður skilið á milli sölu á veiðarfæraefni og sölu á veiðarfærum með skýrari hætti líkt og er með önnur félög innan Hampiðjusamstæðunnar erlendis,” segir Hjörtur Erlendsson forstjóri Hampiðjunnar hf.
Eftir sameininguna verða starfsstöðvar Hampiðjunnar á Íslandi 5 talsins; í Reykjavík, Vestmannaeyjum, Neskaupstað, Akureyri og á Ísafirði. Starfsmenn Hampiðjan Ísland verða um 63 talsins eftir þessa breytingu.
Jón Oddur Davíðsson núverandi sölu- og markaðsstjóri Hampiðjunnar mun taka við starfi framkvæmdastjóra Hampiðjan Ísland, Árni Skúlason verður framleiðslustjóri, Jón Einar Marteinsson mun stýra útibúinu á Austurlandi, Hermann Guðmundsson verður rekstrarstjóri á Akureyri og Snorri Sigurhjartarson rekstrarstjóri á Ísafirði.