Dómsmáli Reiknistofu Fiskmarkaða (RSF) gegn NRS verður ekki áfrýjað og sigur RSF í málinu því í höfn.
„Áfrýjunarfrestur til Landsréttar er liðinn og því er ljóst að dóminum verður ekki breytt heldur stendur hann óhaggaður og þar með lögbannið sem bannar NRS að halda uppboð í því kerfi RSF sem stolið var og kópíerað og ætlað til notkunar í samkeppni við RSF,“ segir í stuttri umfjöllun um málið á vef RSF. Tekið er fram að RSF telji „samkeppni á öllum sviðum atvinnulífs af hinu góða en samkeppni þarf að verða sanngjörn og getur ekki byggst á því að menn taki eignir annara og nýti í starfsemi sinni og brjóti lög í þeim tilgangi að skapa sér stöðu á markaði.“
Í frétt Fiskifrétta frá í febrúar síðastliðnum segir: NRS hafði þróað og sett í „loftið“ uppboðskerfið Njörð og samið við tvo fiskmarkaði um að sjá um uppboð þeirra. Sama dag og uppboðin áttu að fara fram setti sýslumaður lögbann á starfsemi NRS að kröfu Reiknistofu fiskmarkaða. NRS var stofnað af Eyjólfi Þór Guðlaugssyni, sem áður hafði starfað um þriggja áratuga skeið hjá Reiknistofu fiskmarkaða, og Erlingi Þorsteinssyni. Lögbannskrafan byggði á því að Eyjólfur hefði nýtt þekkingu úr starfi sínu hjá Reiknistofu fiskmarkaðanna, sem hafði verið eina fyrirtækið til að annast þessa þjónustu, í þágu keppinautar og það hafi honum verið óheimilt að gera.
„Samkvæmt tilkynningu RSF þann 11.07.2022 var upplýst um niðurstöðu í dómsmáli sem RSF höfðaði gegn NRS vegna ólögmætrar eftirgerðar (kópíeringar) á uppboðskerfi RSF. Með dóminum var lagt bann við notkun NRS á kerfi sínu þar sem það væri allt að 98% eftirgerð (kópíering) á kerfi RSF en ekki sjálfstætt eða nýtt kerfi,“ segir í fréttinni á vef RSF.