Vart hefur orðið við regnbogasilung í sjó í Berufirði. Fiskistofa hefur fengið upplýsingar um að regnbogasilungur hafi veiðst á stöng við bryggjuna á Djúpavogi og einnig hefur regnbogasilungur veiðst í net innst í firðinum. Regnbogasilungur þrífst ekki í íslenskri náttúru en er notaður í fiskeldi, m.a. í sjókvíum í Berufirði á vegum Fiskeldi Austfjarða.

Fiskistofa hefur ekki fengið tilkynningu um að slysaslepping hafi orðið, en eftir samtöl við forsvarsmenn Fiskeldis Austfjarða virðist sem óhapp í vetur kunni að skýra það að regnbogasilungur finnst nú í sjó í Berufirði. Enn er óljóst um umfang slysasleppingarinnar en Fiskistofa hefur óskað eftir ítarlegum skýringum á því óhappi sem kunni að skýra það að fiskur hafi sloppið. Málið hefur jafnframt verði tilkynnt til lögreglu.

Fiskistofa óskaði eftir ráðgjöf frá Veiðimálastofnun um viðbrögð við því að regnbogasilung væri nú að finna í sjó í Berufirði. Mælir Veiðimálastofnun með því að aflað verði meiri upplýsinga um málið áður en frekari aðgerðir, s.s. netaveiðar, verði notaðar í firðinum til að ná eldisfiski. Mikilvægt er að taka mið af því að nú er göngusilung að finna á svæðinu og einnig lax og myndu netaveiðar nú geta haft neikvæð áhrif á villta laxa og silungastofna.

Fiskistofa vinnur nú að því að afla frekari upplýsinga um málið og munu viðbrögð í framhaldi miðast við hvað kemur fram í þeirri rannsókn. Fiskistofa mun vekja athygli veiðifélaga í nágrenni Berufjarðar á málinu og einnig Landsambandi Veiðifélaga.