Til skoðunar er innan atvinnuvegaráðuneytisins að rýmka reglur um meðafla vegna mikillar ýsugengdar norðan og vestan við landið, að því er fram kemur á fréttavef RÚV.
Málið var tekið upp á Alþingi í gær en Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar lýsti áhyggjum af því að mikil ýsugengd truflaði aðrar veiðar. Ýsukvótinn væri svo lítill að mikill meðafli hamlar veiðum í öðrum tegundum. Hún spurði atvinnuvegaráðherra hvort brugðist yrði við, svo hægt yrði að gera verðmæti úr þeim fiski sem verið væri að kasta fyrir borð í gríðarlegu magni eins og trúverðugar fréttir bærust af hvaðanæfa að.
Steingrímur J Sigfússon, atvinnuvegaráðherra, sagði að möguleg viðbrögð hefðu verið skoðuð í ráðuneytinu og meðal annars væri til skoðunar hvort rétt sé að rýmka tímabundið reglur um meðafla. Vandinn væri sá að þrátt fyrir að umtalsvert væri af fullorðinni ýsu, væri nýliðunin slök ár eftir ár. Þá gætu tímabundið komið upp þær aðstæður að það væri talsverð veiði á eldri fiski, en þeir árgangar sem ættu að bætast inn í veiðina á næstu árum væru hinsvegar hörmulega lélegir.
Þetta gæti skýrt tímabundið þetta ástand sem og önnur dreifing ýsunnar á miðunum umhverfis landið
Það væri mikil ýsugengd og mikið af fullorðinni ýsu fyrir norðan land, en minna af henni annars staðar. Það hefðu ekki verið faglegar eða vísindalegar forsendur til að breyta þessum ákvörðunum um aflaheimildir í ýsu.