Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur undirritað breytingu á reglugerð um línuívilnun. Breytingin afturkallar fyrri ákvörðun um að línuívilnun falli niður frá og með deginum í dag. Að óbreyttu hefði línuívilnun fallur niður það sem eftir er þessa mánaðar.

Í upphafi fiskveiðiársins þann 1. september skipulögðu útgerðir sig þannig að viðmiðun til línuívilnunar yrðu ekki lægri en 1.200 tonn í þorski sem er réttur þriðjungur sem hún var tveimur árum fyrr. Hin gríðarmikla skerðing milli ára kom mönnum á óvart þar sem hún var ekki í neinu samræmi við breytingar á þorskkvótanum, segir á heimasíðu Landssamband smábátaeigenda .

LS sendi ráðherra bréf þar sem óskað var eftir því að aflaviðmiðun til línuívilnunar yrði leiðrétt þannig að útgerðir þeirra báta sitji við sama borð og aðrar útgerðir í landinu.

Stöðvun línuívilnunar hefði valdið erfiðleikum hjá landverkafólki sem starfar við beitningu. Um hundruð starfa er að ræða og því mikið í húfi fyrir starfsfólk þeirra 84 útgerða sem fengið hafa línuívilnun.

Í stað þess að II. tímabil gildi til loka febrúar, kveður reglugerðin á um að tímabilinu hafi lokið í gær 11. febrúar og í dag hefjist III. tímabil sem gildir út maí.