Hinn 1. mars síðastliðinn gengu í gildi á Spáni nýjar reglur Evrópusambandsins um refsipunkta vegna fiskveiðilagabrota hliðstæða þeim refsipunktum sem gefnir eru fyrir umferðalagabrot hér á landi og víðar.

Kerfið virkar þannig að þegar fiskimenn fá sektir fyrir fiskveiðibrot fá þeir jafnframt refsipunkta. Þegar punktarnir hafa náð ákveðnum fjölda fellur fiskveiðileyfi viðkomandi báts niður tímabundið eða er afturkallað, mismunandi  eftir alvarleika brotsins.

Samtök spænskra fiskimanna mótmæla þessum nýju refsiaðferðum, segja að ekki hafi verið haft nægilegt samráð við þá um útfærsluna, óttast að mönnum innan greinarinnar verði mismunað og  sumir ganga svo langt að fullyrða að þær ógni lífsafkomu sinni.

Um leið og refsipunktarnir voru teknir upp hafa reglur um sektir verið uppfærðar. Fyrir minniháttar brot eru þær á bilinu 60-600 evrur (9.400-94.000 íslenskar krónur). Fyrir alvarleg brot eru sektirnar allt að 60.000 evrur (9,4 milljónir ísl. kr.) og fyrir verstu brotin allt að 300.000 evrur (47 milljónir ísl. kr.).