Nýlega lauk leiðangri á hafrannsóknaskipinu James Clark Ross um Norðurhöf. Í fyrri hluta leiðangursins var verið við rannsóknir á straumum og sjógerðum í Grænlandssundi. Jafnframt var unnið að því að taka upp straummælingalagnir sem lágu á sniði þvert yfir norðanvert Grænlandssund.
Starfsmenn Hafrannsóknastofnunarinnar tóku þátt í þessum hluta leiðangursins, en straummælingarnar eru samstarfsverkefni hafrannsóknastofnana í Bandaríkjunum, Íslandi, Noregi og Hollandi.
Mælitækjum þessum hafði verið lagt í ágúst 2011 og voru nú tekin upp ári seinna. Megin markmið þessarar athugunar er að meta hlut djúpsjávarstreymis úr Íslandshafi í heildarstreymi djúpsjávar til suðurs yfir neðansjávarhrygginn milli Íslands og Grænlands.
Fyrir nokkrum árum kynntu haffræðingar Hafrannsóknastofnunarinnar djúpstraum norðan Íslands sem síðan hefur verið rannsakaður frekar í samvinnu við Woods Hole rannsóknarstofnunina.
Að þessu sinni fengust einstök gögn í mikilli upplausn á styrk straums, hita og seltu í flæði sjávar í gegnum Grænlandssund. Unnið verður úr þeim á næstu mánuðum. Í síðari hluti leiðangursins voru gerðar mælingar á straumum og sjógerðum norður með austurströnd Grænlands og lauk nú í byrjun september.
Nánar á vef Hafrannsóknastofnunarinnar.