Í sumar hefur Síldarvinnslan unnið í samstarfi við Nýsköpunarsjóð námsmanna, Matís og IceFresh GMBH að rannsóknarverkefni sem snýr að sjókælingu á gullkarfa. Verkefnið er unnið af tveimur háskólanemum þeim Hafrúnu Hálfdanardóttur sem stundar nám í Lífefna- og sameindalíffræði við Háskóla Íslands og Unni Ingu Kristinsdóttur sem stundar nám í sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri. Greint er frá þessu á heimasíðu Síldarvinnslunnar, www.svn.is.

Verkefnið fer fram um borð í togaranum Bjarti NK, í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar og í fiskvinnslu IceFresh í Frankfurt. Um borð í Bjarti er búið að koma upp tankalíki ásamt kælipressu sem kælir sjó til að viðhalda gæðum karfans. Við löndun er karfinn ýmist fluttur flakaður eða heill til Þýskalands þar sem karfinn er skoðaður og metinn.

Hafrún Hálfdánardóttir sinnir þeim atriðum verkefnisins sem vinna þarf í landi og í samstarfi við Matís í Neskaupstað hefur hún unnið að því að greina örveruvöxt, seltu og fleira sem kanna þarf við kælingu hráefnis í sjó í stað hefðbundinnar aðferðar.

Nú er yfirstandandi síðasta veiðiferð Bjarts á Íslandsmiðum og er Unnur Inga háseti í þeim túr. Strákarnir á Bjarti eru hæstánægðir með veru Unnar um borð í ágúst og segir sagan að umgengni um borð í skipinu hafi aldrei verið jafn mikið til fyrirmyndar.