Hjá Tilraunastöð Hafrannsóknastofnunar að Stað í Grindavík er gert ráð fyrir að framleiða um 220 þúsund hrognkelsi, og að þau verði öll seld úr landi. Síðastliðin fjögur ár hafa hrognkelsi verið ræktuð og seld til færeysku laxeldisstöðvarinnar P/F Hiddenfjord. Þar munu hrognkelsin éta lýs af eldislaxi í kvíum fyrirtækisins.
Eldið byggir á samningi við færeyska fyrirtækið og hljóðar upp á afhendingu á 150.000 hrognkelsum á ári, sem flutt eru út með flugi í sérstökum flutningskössum, eins og segir frá í frétt frá Hafrannsóknastofnun.
Verkefnið er unnið í samvinnu við Stofnfisk, sem hefur sett upp eigin aðstöðu til framleiðslu og selur einnig hrognkelsi til P/F Hiddenfjord. Fyrirhugað var að í fyllingu tímans myndi Stofnfiskur alfarið sjá um þessa framleiðslu, enda er það ekki hlutverk Hafrannsóknastofnunar. Laxeldisstöðin hefur hins vegar óskað eftir því að framleiðslunni verði haldið áfram, segir í frétt Hafró og að stefnt sé „að rannsóknum á því hvernig auka megi lifun og gæði hrognkelsanna svo þau nýtist sem best við aflúsun laxa. Þær rannsóknir munu nýtast íslensku fiskeldi sem og frændum okkar í Færeyjum.“
Hófst skipulega 2014
Fiskifréttir sögðu frá því á sínum tíma að hrognkelsaeldi hófst í fyrsta sinn með skipulögðum hætti hér á landi hjá Hafró vorið 2014, þegar færeyska fyrirtækið hugðist gera umfangsmikla tilraun með að láta hrognkelsaseiði hjálpa til við að halda laxalús í skefjum í sjókvíum.
Báturinn Tryllir GK veiddi í byrjun apríl 2014 64 grásleppur og 24 rauðmaga fyrir utan Grindavík í fjórum ferðum. Þegar tekist hafði að safna nægilegu magni lífvænlegra hrogna var 45 foreldrafiskum fargað þann 8. maí og öll nauðsynleg sýni tekin til sjúkdómarannsókna. Niðurstöður rannsókna stóðust allar tilsettar kröfur sem Færeyingar höfðu sett svo heimild fengist fyrir innflutningi. Klak og frumfóðrun gekk vonum framar og þegar upp var staðið náðust yfir 500.000 seiði á legg. Seiðum var einnig komið fyrir í eldisstöð Stofnfisks í Höfnum til áframeldis og útflutnings. Alls voru 405.000 seiði bólusett gegn kýlaveikibróður og vibríuveiki og voru fyrstu seiðin flutt til Færeyja í framhaldinu, þá 18 grömm að þyngd.
Flutningar hafa farið fram bæði flugleiðis og með flutningstönkum sjóleiðina með skipum Eimskips. Flutningur seiða sjóleiðis hefur ekki gengið alveg áfallalaust. Í ljós kom að hrognkelsin voru mun viðkvæmari fyrir langtímaveltingi en laxaseiði sem fóru sömu leið í sama skipi. Þá var móttaka og aðlögun seiða í Færeyjum áður en þeim var sleppt út í kvíar ábótavant til að byrja með.
Þriðja stærsta eldistegundin
Eldið sem um ræðir hefur vaxið ört í Noregi, og var svo komið árið 2015 að hrognkelsi voru þriðja stærsta eldistegundin í Noregi, næst á eftir laxi og regnbogasilungi. Alls voru seld 12 milljónir hrognkelsa á árinu samanborið við 3,5 milljónir árið á undan. Hrognkelsin eru eins og fyrr segir sett í eldiskvíar lax og silungs í þeim tilgangi að hreinsa fiskana af laxalús.
Seld voru 1.350 þúsund tonn af norskum eldislaxi árið 2015, en framleiðslan mun hafa verið 1,2 milljónir tonna í fyrra. Verðmætið losar 700 milljarða íslenskra króna. Það er 2,5 sinnum meira en heildarútflutningsverðmæti sjávarafurða frá Íslandi árið 2015. Alls starfa um 6.700 manns í eldisiðnaðinum í Noregi.