Tíu til tólf prósent af fjármunum Hafrannsóknastofnunar fara til loðnurannsókna, alls um 600 milljónir á síðasta ári. Forstjóri Hafró segir skilning skorta hjá stjórnvöldum og útgerðin vilji ekki lengur greiða fyrir loðnuleit, en þetta sé sameiginlegt verkefni stofnunarinnar, stjórnvalda og útgerðarinnar.

„Við erum að eyða alveg gífurlega miklum peningum í loðnuna,“ sagði Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar. Hann flutti erindi um loðnurannsóknir stofnunarinnar

Alls sé Hafrannsóknastofnun að verja um það bil 10 til 12 prósentum af fjármunum sínum í loðnurannsóknir, eða um 600 milljónum á síðasta ári. Loðnan sé þó aðeins einn af þeim 36 stofnum sem veitt er ráðgjöf fyrir.

Þorsteinn flutti í síðustu viku erindi á vegum Þekkingarseturs Vestmannaeyja, þar sem fjallað var um loðnuna og rannsóknir á henni.

Birkir Bárðarson fiskifræðingur, sem hefur stýrt loðnuleiðöngrum stofnunarinnar undanfarin ár, flutti einnig erindi og Erlendur Bogason kafari sagði frá merkilegum neðansjávarkynnum sínum af loðnunni.

Þorsteinn tók fram að loðnan sé tegund sem hrygnir aðeins einu sinni og drepst síðan. Á Hafrannsóknastofnun geri fólk sér fulla grein fyrir því að ef mistök eru gerð í loðnumælingum verði það dýrt fyrir alla.

„Þess vegna hafa menn haft skilning á því að mælingarnar séu gerðar þannig að það sé orðið fullreynt og fullmælt,“ sagði hann.

Óvíst um framhald

„Þannig að þetta er auðvitað dýrt og hefur skort kannski skilning stjórnvalda á þessu mikilvægi. Þó menn sjái það að mörgu leyti þá hefur það ekki að fullu skilað sér inn. Það var þó þannig að á síðustu vertíð veitti Alþingi 120 milljónum aukalega til vöktunarinnar, og úr þeirri púlíu var greitt fyrir aðkomu veiðiskipa. Útgerðin hefur verið þeirrar skoðunar að ríkið eigi í raun að sjá um rannsóknirnar. Þau borgi veiðigjöldin og þau eigi að dekka það. Þau vilja ekki lengur gera þetta á eigin kostnað, eins og þau gerðu hér til skamms tíma.“

Ekki sé vitað hvort þetta viðbótarframlag fáist áfram en þetta sé verkefni sem Hafrannsóknastofnun, ráðuneytið og uppsjávarútgerðirnar þurfi að taka á saman.

„Peningarnir sem eru að fara í þetta, um 600 milljónir á síðasta ári, eru auðvitað um hellings peningur og að stærstum hluta til fer það til vöktunar. Grunnrannsóknir hafa svolítið þurft að líða fyrir þörfina til vöktunar.“

Óneitanlega gangi mikið á, breytingar hafi orðið bæði á útbreiðslu og magni loðnunnar.

„Það dylst engum að stofninn hefur verið minni á undanförnum 20 árum en hann var. Við sjáum það bara í aflanum og erfiðleikunum. Þannig að það er kostnaðarsamt að vera að glíma við vöktun á þessari tegund í þeim breytingum sem hafa átt sér stað.“

Hvað varðar þörfina fyrir fjármagn í rannsóknir, þá vildi Þorsteinn ekki nefna neina tölu en sagði að þessi þróun sé ekki komin á leiðarenda. Ef fara eigi í grunnrannsóknir á loðnu í tengslum við þær umhverfisbretingar sem hafa átt sér stað og muni eiga sér stað á næstu árum þá þyrfti að „spýta allverulega í.“

Það sé dýrt að vera með skip og mannskap í rannsóknum, ekki síst þegar bæta þurfi tækjabúnað til þess að gera þetta enn betur. Það sé auðvitað framtíðin.

Á fundinum gerði Birkir Bárðarson einnig ítarlega grein fyrir loðnurannsóknum stofnunarinnar, sem hann hefur stýrt á undanförnum árum, og helstu forsendum ráðgjafarinnar.

Ætlar að fylgja loðnunni

Erlendur Bogason kafari sagði meðal annars frá köfun sinni ofan í loðnutorfu út af Snæfellsnesi í mars síðastliðnum, þar sem hann náði einstæðu myndefni. Hann sagði það draum sinn að fylgja loðnunni á ferðum hennar kringum landið og fylgjast með hrygningunni.

„Og ekki bara draumur því ég ætla að láta það gerast. Nú er bara að stefna að því að finna bát og fylgja loðnunni eftir, helst frá Austfjörðunum og með suðurströndinni og inn á Breiðafjörðinn og fylgja hrygningunni og mynda hrygninguna.“

Erlendur hefur einnig náð myndum af loðnuseiðum í Eyjafirði og Seyðisfirði, og segist vera orðinn gjörsamlega heillaður af þessum fiski sem er svo mikilvægur bæði fyrir lífríkið og útgerðina.

Afránið ofmetið

Að loknu erindi Þorsteins, sem var síðast á dagskrá, spurði Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, hvort ofmatið á þorski undanfarin ár hafi jafnframt valdið því að afrán loðnu hafi verið ofmetið í útreikningum Hafró.

Sem kunnugt er lækkaði stofnunin ráðgjöf sína fyrir þorskveiðar næsta fiskveiðiárs vegna nýrra útreikninga sem sýna að þorskstofninn hafi verið ofmetinn.

Þorsteinn svaraði því til að ofmatið á þorski hafi vissulega áhrif á mat stofnunnarinnar á afráni loðnu, og sló gróflega á tölur um að 19% ofmat á viðmiðunarstofni þorsksins gæti þýtt um það bil 15.000 tonn í útreikningum á afráni loðnu.

„Þetta er bara quick and dirty en stærðargráðan gæti legið einhvers staðar þar.“