Lokið er framkvæmdum við rafvæðingu fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Heildarkostnaður Síldarvinnslunnar vegna framkvæmdanna nemur rúmlega 400 milljónum króna, að því er fram kemur á heimasíðu fyrirtækisins.
Framkvæmdir við rafvæðinguna hófust fyrir rúmu ári en þær fólu í sér eftirfarandi: Í fyrsta lagi voru þurrkarar verksmiðjunnar rafvæddir, komið upp háspennubúnaði, spennum, rofum og öðrum tilheyrandi rafbúnaði. Í öðru lagi þurfti að ráðast í byggingaframkvæmdir eins og hækkun á þurrkarahúsi og byggingu rofahúss, spennistöðvar og töfluherbergis. Í þriðja lagi var síðan settur upp 34 metra hár skorsteinn og nýr lykteyðingarbúnaður.
„Ekki fer á milli mála að rafvæðingin er stórt og mikið framfaraskref. Í fyrsta lagi stuðlar hún að betri nýtingu á þeirri orku sem framleidd er í landinu. Í öðru lagi er um að ræða umhverfisvæna framkvæmd þar sem hin græna endurnýjanlega raforka leysir olíuna af hólmi. Í þriðja lagi er rafvæðingin gjaldeyrissparandi þar sem innlend orka kemur í stað innfluttrar og í fjórða lagi mun útblástur frá verksmiðjunni minnka mikið,“ segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar.
http://svn.is/index.php?option=com_content&task=view&id=251&Itemid=1