Met verður sett í komu skemmtiferðaskipa í Faxaflóahafnir á árinu. Að sögn Gunnars Tryggvasonar, hafnarstjóra Faxaflóahafna, höfðu um 269 skipakomur verið skráðar 1. mars og gæti þeim því enn hafa fjölgað. Farþegafjöldinn verður nálægt 300.000. Á síðasta ári komu 184 skip. Áætlaðar tekjur Faxaflóahafna af komu skemmtiferðaskipa á árinu eru um 1.100 milljónir kr. sem slagar í 30% af heildartekjum hafnarinnar.
Uppselt
Gunnar segir að ekki sé hægt að verða við fleiri skipakomum yfir háannatímann í júní, júlí og ágúst. Faxaflóahafnir hafa látið hanna sjálfvirkt vefkerfi sem umboðsaðilar skemmtiferðaskipanna hefur aðgang að og því ekki ljóst hver umfram eftirspurnin er. Faxaflóahafnir hafa pláss fyrir allt að fimm skemmtiferðaskipum í einu í Reykjavíkurhöfn, þar af tvö stór við Skarfabakka, eitt millistórt við Kornbakka og tvö minni í gömlu höfninni.
Gunnar segir að senn muni afkastageta Faxaflóahafna aukast því verið er að lengja hafnarkant á Akranesi. Hugsanlegt er að sá kantur verði tekinn í notkun að hálfu leyti, þá án yfirborðsfrágangs, sumarið 2024.
„Aðalverkefnið framundan er fyrirhuguð bygging farþegamiðstöðvar sem er í forhönnun núna,“ segir Gunnar. Þar mun fara fram öryggisskoðun og tollgæsla fyrir farþega sem koma með flugi til landsins.

© BIG (VB MYND/BIG)
Til að sinna þessari auknu umferð er talið nauðsynlegt að í flotann bætist nýtt dráttarskip fyrir Faxaflóahafnir.
„Við erum með á áætlun 2026 að vera komnir með rafdrifinn dráttarbát. Undirbúningur fyrir útboð á evrópska efnahagssvæðinu hefst eftir sumarvertíðina sem framundan er,“ segir Gunnar.
Magni reynst vel
Gunnar segir að nýi dráttarbáturinn Magni hafi reynst vel eftir talsvert brösuga byrjun og bilanir. Hann er þó einungis notaður við stærri verkefni þar sem hann eyðir umtalsvert meiri olíu en minni bátarnir. Stóru verkefnin eru stóru skemmtiferðaskipin og vond veður. Þegar veður eru válynd er öflugasti báturinn notaður. Stærstu skipin í flutningum eru svo súrálsskipin sem koma til hafnar á Grundartanga og Straumsvík sem Faxaflóahafnir þjónusta með dráttarbátnum Magna öryggisins vegna.
„Vöruflutningarnir eru okkar stærstu tekjulind og sjávarútvegurinn er í öðru sæti. Ferðaþjónustan, þ.e. skemmtiferðaskip og hvalaskoðunin, eru farin að slaga í 30% af heildartekjum hafnarinnar og eru þriðja stoðin sem verður sennilega innan tíðar stærri en sjávarútvegurinn og er hugsanlega jafnvel orðin það nú þegar.”