Rækjuvinnsla Ramma hf. á Siglufirði gekk vel á síðasta ári. Að jafnaði unnu á milli 20 og 30 manns í verksmiðjunni og framleiðslan var í takt við áætlanir. Verð á pillaðri rækju hækkaði nokkuð á árinu og eftirspurn hefur verið góð, að því er fram kemur á heimasíðu Rammans.

Veiðarnar yfir vetrarmánuðina eru erfiðar, nú sem fyrr, og hefur frosið hráefni af erlendum uppruna verið notað til þess að brúa bilið í vinnslunni. Nú bregður svo við að mjög lítið framboð er af erlendri iðnaðarrækju og því má búast við að einhverjir dagar falli úr vinnslu á fyrstu dögum ársins. Stefnt er að því að vinna álíka mikið magn af rækju á árinu 2012 og unnið var á árinu 2011.