Lokið er árlegri stofnmælingu Hafrannsóknastofnunarinnar á rækju á grunnslóð vestan- og norðanlands. Könnuð voru sex svæði: Arnarfjörður, Ísafjarðardjúp, Húnaflói, Skagafjörður, Skjálfandi og Öxarfjörður.

Stærstu tíðindin eru þau að Hafró leggur til að veiðar verði leyfðar á ný í Ísafjarðardjúpi og ráðleggur 1.000 tonna afli. Rækjustofninn í Ísafjarðardjúpi hefur verið í lægð og ekki hefur verið veitt úr stofninum frá árinu 2003. Stofnvísitala rækju í Ísafjarðardjúpi mældist nú yfir meðallagi. Útbreiðsla rækjunnar takmarkaðist við inndjúpið og Skötufjörðinn. Mesta magn þorsks var rétt utan við aðalútbreiðslusvæði rækjunnar.

Þá má nefna að stofnvísitala rækju í Skjálfanda hækkaði töluvert frá fyrri árum. Uppistaðan voru tveir sterkir árgangar, 1 og 2 ára, en lítið mældist af stórri rækju. Þar sem rækjan er mjög smá í Skjálfanda hefur Hafrannsóknastofnunin lagt til að ekki verði hafnar veiðar á svæðinu. Mikið magn ungrækju tvö ár í röð gefur hins vegar tilefni til bjartsýni um að rækjustofninn sé á uppleið í Skjálfanda.

Stofnvísitala rækju í Arnarfirði var undir meðallagi og var lægri en árið 2010. Líkt og verið hefur undanfarin ár var helsta útbreiðslusvæði rækju innst í firðinum. Magn ungrækju var nálægt meðallagi og hefur hækkað nánast stöðugt frá árinu 2005. Mikið var af þorsk- og ýsuseiðum á rækjusvæðunum og á grundvelli þess hefur Hafrannsóknastofnunin lagt til að rækjuveiðar verði ekki leyfðar í Arnarfirði að svo stöddu. Nauðsynlegt þykir að kanna svæðið aftur síðar með tilliti til seiðamagns.

Sjá nánari fréttir og skýringarmyndir á vef Hafrannsóknastofnunar.