Óhætt væri að veiða um 90 þúsund tonn af rækju við Vestur-Grænland á árinu 2016 samkvæmt ráðgjöf Náttúrufræðistofnunar Grænlands. Þetta kemur fram á vef stofnunarinnar. Tekið er fram að þessi ráðgjöf taki mið af því að veiðarnar verði áfram sjálfbærar.
Þessum tíðindum er fagnað í Grænlandi því að á árinu 2015 hljóðaði ráðgjöf stofnunarinnar upp á 60 þúsund tonn. Aukningin í ráðgjöfinni er því 30 þúsund tonn. Stuðst er við aflareglu og var kvótinn í ár ákveðinn um 73 þúsund tonn. Í aðalatriðum er reglan sú að kvótinn sé ekki aukinn eða minnkaður um meira en 12,5% á milli ára. Engar ákvörðun hefur verið tekin um rækjukvótann á næsta ári.
Í frétt stofnunarinnar segir jafnframt að mikil nýliðun sé væntanleg í veiðistofninn og því megi búast við því að lífmassi rækju aukist á næstu árum. Þar með sé allt útlit fyrir að tíu ára samdráttarskeiði í rækjustofninum sé lokið.
Þess má geta að ekki engar breytingar eru á ráðgjöf stofnunarinnar varðandi rækju við Austur-Grænland. Í ár má veiða þar 2 þúsund tonn og það sama er uppi á teningnum árið 2016.