Lokið er árlegri stofnmælingu Hafrannsóknastofnunar á rækju við Snæfellsnes. Mælingin fór fram á Dröfn RE 35 á tímabilinu 22. til 26. apríl. Eitt helsta markmið leiðangursins var að meta stofnstærð rækju á svæðinu og kanna fiskgengd á svæðinu.
Könnunin leiddi í ljós að ástand rækjustofnsins á svæðinu er ágætt og mældist stofnvísitalan yfir meðallag. Stærð rækju í Breiðafirði var 123 stk/kg en hún taldist 167 stk/kg í Kolluál og eru þetta svipaðar talningar og fengust í stofnmælingu árið 2014. Meira mældist af rækju í Breiðafirði en í fyrra. Lítið var af fiski á slóðinni.
Á grundvelli niðurstaðna úr nýafstaðinni stofnmælingu hefur Hafrannsóknastofnun lagt til að leyfðar verði veiðar á 700 tonnum af rækju á svæðinu við Snæfellsnes á tímabilinu 1. maí 2015 til 15. mars 2016.
Sjá nánar skýringarmyndir á vef Hafró.