Ráðgjöf ársins hljóðar upp á 708.480 tonn, en ráðgjöf yfirstandandi árs nemur 885.600 tonnum þannig að lækkunin milli ára er 177.200 tonn.

Norska hafrannsóknastofnunin, Havforskningsinstituttet, greinir frá þessu. Rétt eins og hér á landi var ráðgjöf næsta árs kynnt í Noregi í gær.

Ráðgjöfin lækkar ekki aðeins í Barentshafsþorski heldur einnig í ýsu og grálúðu norðan 62. Breiddargráðu, þ.e. í Barentshafi og við Norður-Noreg. Þannig er ráðlagt að ýsuveiðar næsta árs nemi 180.003 tonnum sem er lækkun upp á rúm 50.000 tonn, og grálúðuveiðar eru ráðlagðar rúm 19.000 tonn sem er 4.000 tonnum lægra en síðast.

Rétt eins og hér á landi er þessi ráðgjöf byggð á breyttu stofnmati.

„Lækkunin stafar einkum af tveimur atriðum,“ segir Bjarte Bogsted, vísindamaður hjá norsku hafrannsóknarstofnuninni, í grein á vef stofnunarinnar. „Við endurskoðuðum aðferðirnar sem varð til þess að magn eldra fisks í stofninum varð lægra. Um leið sýndu leiðangrarnir í haust og í vetur að magnið af fiski var minna en við áttum von á.“

Hann tekur einnig fram að búast megi við að breytingar til lækkunar haldi eitthvað áfram næstu árin.