Félagar í Smábátafélaginu Hrollaugi lýsa yfir fullu vantrausti á hendur Gunnari Braga Sveinssyni sjávarútvegráðherra og krefjast þess að hann segi af sér sem sjávarútvegsráðherra eða verði sagt upp störfum tafarlaust.
„Gunnar Bragi hefur sýnt það með gjörðum sínum að hann stuðlar að og hvetur til óeiningar og misskiptingar innan strandveiðikerfisins á Íslandi. Gunnar Bragi ákvað það einn manna og gegn vilja þingmanna þjóðarinnar að færa afkomu 125 strandveiðisjómanna suðursvæðis og fjölskyldna þeirra í sitt eigið kjördæmi. Sjávarútvegráðherra hefur klárlega misnotað vald sitt í eigin þágu sem er gríðarlega alvarlegt mál sem við látum ekki líðast,“ segir í ályktun félagsins.
Eins og fram hefur komið í fréttum hefur sjávarútvegsráðherra lýst því yfir að 200 tonna skerðing viðmiðunarafla á suðursvæði í strandveiðum, sem ákveðin var í vor, verði ekki afturkölluð á þessu sumri en skipting strandveiðiaflans komi til endurskoðunar í vetur. Tonnin 200 voru flutt af suðursvæði og þeim dreift á önnur svæði á þeirri forsendu að illa hefði gengið að veiða á suðursvæði á undanförnum tveimur árum. Í ár bregður hins vegar svo við að gott fiskirí hefur verið á svæðinu og fengu strandveiðimenn þar aðeins fjóra veiðidaga í júlí áður en veiðar voru stöðvaðar.
Sjá ályktun Hrollaugs í heild á vef LS.