Hafrannsóknastofnun ráðleggur að humarafli ársins 2021 verði ekki meiri en 143 tonn svo fylgjast megi með stærðarsamsetningu og dreifingu stofnsins. Jafnframt leggur stofnunin til að allar humarveiðar verði bannaðar í Jökuldjúpi og Lónsdjúpi til verndar uppvaxandi humri.

Þetta kemur fram í tilkynningu.

Þar segir að til að minnka álag á humarslóð ráðleggur Hafrannsóknastofnun að veiðar með fiskibotnvörpu verði áfram bannaðar á afmörkuðum svæðum í Breiðamerkurdjúpi, Hornafjarðardjúpi og Lónsdjúpi.

„Stofnstærð humars í stofnmælingu 2020 lækkaði um 27% frá árinu 2016. Á sama tíma hefur veiðihlutfall minnkað úr 1.9% í 0.4%. Þéttleiki humarholna við Ísland (0.065 holur/m2) mælist nú með því lægsta sem þekkist meðal þeirra humarstofna sem Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) veitir ráðgjöf um. Fyrirliggjandi gögn benda til að nýliðun sé í sögulegu lágmarki og að árgangar frá 2005 séu mjög litlir. Verði ekki breyting þar á má búast við áframhaldandi minnkun stofnsins,“ segir Hafrannsóknastofnun.