Veruleikinn er fljótur að taka á sig nýja mynd hjá uppsjávarfyrirtækjum landsins eins og breytt ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar í loðnu frá því á þriðjudag er skýrt dæmi um. Í stað útgefinnar upphafsráðgjafar upp á 400.000 tonn er ráðgjöf Hafró nú að loðnuafli veturinn 2022/2023 verði ekki meiri en 218.000 tonn.

Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar í Fáskrúðsfirði, kippir sér lítið upp við nýjustu fregnir af loðnuráðgjöf og kveðst öllu vanur í þeim efnum.

„Það er ekkert nýtt í því að við vitum ekki hvað við megum veiða af loðnu fyrr en í febrúarbyrjun. En þetta er vissulega ekki í samræmi við haustmælinguna í fyrra. Ef ég man rétt var það þriðja hæsta mæling frá upphafi. Annað hvort hefur hluti af þessari ungloðnu farist eða hún haldið sig annars staðar þar sem hennar hefur ekki orðið vart. Það vantar alla vega alveg helminginn miðað við ungloðnumælinguna í fyrra. Það er samt allt of snemmt að pæla í því hvaða áhrif þetta geti haft á afkomu uppsjávarfyrirtækjanna,“ segir Friðrik Mar.

Meiri verðmæti með minni kvóta

Hann bendir á að loðnuaflinn fari allur í dýrustu afurðirnar þegar kvótinn minnki. Allt fari meira eða minna í hrognatöku og frystingu á Japansloðnu. Miðað við þetta sé ekki útlit fyrir að neinar veiðar hefjist í nóvember og desember á þessu ári.

„En auðvitað fer Hafró yfir þetta aftur í janúar og byrjun febrúar og ekki er loku fyrir það skotið að ráðgjöfin geti breyst á ný,“ segir Friðrik Mar.

Hvað varðar ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins á deilistofnunum segir Friðrik Mar 81% aukningu í kolmunna til merkis um að nýliðunin hafi verið góð allt tal um ofveiði virðist ekki á rökum reist. Það hafi þó enginn átt von á svo mikilli aukningu í ráðgjöfinni.

Norðmenn frekir til fjörsins

Miðað við óbreyttar forsendur verði íslenski kvótinn í makríl 129.000 tonn en á móti komi 15% skerðing í norsk-íslenskri síld.

„Norðmenn tóku sér 100.000 tonn umfram það hlutfall sem þeir hafa úthlutað sér venjulega bæði í fyrra og á þessu ári og Færeyingar 60.000 tonn hvort ár. Þessar þjóðir voru því að taka sér aukalega 160.000 tonn á þessu ári. Menn eru alltaf að vonast eftir því að það náist samkomulag milli strandríkjanna. Norðmenn hafa ekki viðurkennt Ísland sem makrílveiðiþjóð og vonast til þess að makríll yrði óveiðanlegur fyrir okkur. En þótt síðasta vertíð hafi verið erfið og langt að sækja makrílinn höfum við með öflugri skipum náð góðum árangri miðað við aðstæður. Auk þess mældust síðast 1,4 milljónir tonna af makríl innan íslensku lögsögunnar.“

Minni loðna en mikið af kolmunna

Hafrannsóknastofnun hefur á síðustu dögum birt veiðiráðgjöf bæði í loðnu og í deilistofnunum þremur, makríl, kolmunna og norsk-íslenskri síld.

Stofnunin telur ekki ráðlegt að veiða meira en 218.400 tonn af loðnu núna í vetur, sem er hátt í helmingi minna en þau 400.000 tonn sem upphafsráðgjöfin frá síðasta ári hafði gefið vonir um. Sú ráðgjöf var byggð á því sem magni mældist af ókynþroska loðnu í haustmælingum haustið 2021. Þessi niðurstaða er þó ekki endanleg því vetrarleiðangur upp úr áramótum mun skera úr um hvort óhætt þyki að bæta í ráðgjöfina.

„Heildarmagn loðnu mældist tæp 1,1 milljón tonn og þar af var stærð hrygningarstofns metin 763 þúsund tonn,“ segir í frétt Hafrannsóknastofnunar. „Magn ókynþroska í fjölda var um 41 milljarðar en samkvæmt samþykktri aflareglu þarf yfir 50 milljarða til að mælt verði með upphafsaflamarki fiskveiðiársins 2023/2024.“

Makríllinn svipaður

ICES leggur til, í samræmi við nýtingarstefnu sem mun leiða til hámarksafraksturs til lengri tíma litið (MSY), að afli ársins 2023 verði ekki meiri en 782 þúsund tonn. Ráðgjöf yfirstandandi árs var 795 þúsund tonn og því er um að ræða tæplega 2% lægri ráðgjöf nú.

Stökk í Kolmunna

Aðra sögu er að segja af kolmunnanum því ráðgjöfin hækkur um 81% frá í fyrra. Óhætt þykir að veiða tæp 1.360 þúsund tonn en ráðgjöf yfirstandani árs er 753 þúsund tonn.

„Ástæðan fyrir mikilli hækkun á aflamarki er vaxandi hrygningarstofn,“ segir Hafrannsóknastofnun. „Árgangurinn frá 2020 er metinn sá stærsti sem mælst hefur við tveggja ára aldur (2022) og einnig er hann metinn ríflega þrisvar sinnum stærri nú en í stofnmati síðasta árs. 2020 árgangurinn gengur að fullu inn í hrygningarstofninn árið 2023 og framreikningar sýna stækkandi hrygningarstofn næstu tvö árin sé ráðgjöf fylgt.“

Síldin lækkar

Ráðgjöfin fyrir norsk-íslenska vorgotssíld árið 2023 er 511.000 tonn, sem er nærri 15% minna en ráðgjöf yfirstandanir árs.
„Gert er ráð fyrir að stóri árgangurinn frá 2016 verði uppistaðan í veiði næsta árs en árgangar þar á eftir eru metnir litlir,“ segir Hafrannsóknastofnun. Væntanlega má þá búast við frekari lækkun á næstu árum.

Ekkert samkomulag

Ekkert samkomulag hefur árum saman verið milli strandríkjanna við Norðaustur-Atlantshaf um veiðar úr sameiginlegu uppsjávarstofnunum. Hvert ríki hefur því sjálft sett sér aflamark án tillits til veiða hinna ríkjanna, með þeim afleiðingum að heildarveiðin hefur verið langt umfram ráðgjöfina. Óðum styttist reyndar í hina árlegu haustfundi strandríkjanna og aldrei að vita nema samkomulag takist í þetta skiptið.

Umframveiðin

Allt stefnir í að heildarveiðin í makríl á yfirstandandi ári verði ríflega 1,1 milljón tonn, sem er 42% umfram ráðgjöf.

Sömuleiðis má búast við að 1,1 milljón tonn verði veidd af kolmunna, sem er 47% umfram ráðgjöf. Frá árinu 2018, hafa makrílveiðar farið 23-33% framúr ráðgjöfinni.

Þá er áætlað er að síldarafli ársins 2022 verði um 828 þúsund tonn sem er 28% umfram ráðgjöf, en frá 2018 hefur síldveiðin verið 4-42% á ári umfram ráðgjöf.