Nýsköpunarfyrirtækið Optitog hefur hafið samstarf við þrjár leiðandi útgerðir við Norður-Atlantshafið um prófanir á byltingarkenndum veiðiaðferðum á rækju og bolfisk sem byggja á smölun með stefnumiðuðu ljósi. Markmiðið er að auka aflann, vernda hafsbotninn og draga úr orkunotkun skipa. Búnaðurinn er kominn í togara hérlendis og erlendis.

Góður gangur í prófunum

Útgerðirnar sem eru í samstarfi við Optitog eru Brim, Reyktal sem gerir út á veiðar á kaldsjávarrækju í Barentshafi, og eitt stærsta útgerðarfyrirtæki Færeyja. Samstarfið og stuðningur þessara fyrirtækja við verkefnið felst í leigu á búnaði sem þau prófa að beita á mismunandi hátt við veiðarnar. Torfi Þórhallsson verkfræðingur og einn af stofnendum Optitog, segir góðan gang í prófunum og að nýlega tilkominn stuðningur frá Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins komi sér vel á þessu stigi í þróun tækninnar.

Optitog hefur líka notið stuðnings frá Loftslagssjóði, Orkusjóði, AVS og Tækniþróunarsjóði. Auk Torfa starfa hjá Optitog Halla Jónsdóttir líffræðingur, Jón Sölvi Snorrason verkfræðingur, Eiríkur Sigurðsson starfsmaður Reyktal ásamt hóp öflugra skipstjóra hjá útgerðunum þremur og sérfræðingum Hafrannsóknastofnunar.

Samstarf í Svíþjóð

„Við erum að færa út kvíarnar með samstarfi við útgerðir utan Íslands, það er að segja í Færeyjum og einnig erum við komin með verkefni af stað í Norðursjó í gegnum sænskt útgerðarfyrirtæki sem stundar þar rækjuveiðar. Þessi verkefni snúast um prófanir á búnaðinum við þeirra veiðar á þeirra svæði og úr þeirra stofnum. Það felast talsverð tímamót fyrir okkur með þessu aukna samstarfi því upphaflega hófst verkefnið einungis með samstarfi við Hafrannsóknastofnun með prófunum á Ísafjarðardjúpi og í kringum Snæfellsnes. En með þessu er prófunarsvæðið núna Austur-Grænland, Barentshafið og svo bætist Svíþjóð við auk Íslandsmiða,“ segir Torfi.

Rækju lyft af hafsbotni með ljósi

Halla segir verkefnið snúast um að smala rækju og jafnvel bolfiski inn í troll með ljósi. Við höfum tölfræðilega marktækar niðurstöður um að með notkun ljóss við rækjuveiðar getum við lyft rækju frá botni og inn í tilraunabotntroll sem stýrt er til að vera í um 30 cm hæð yfir sjávarbotni.

Halla Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Optitog.
Halla Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Optitog.
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

„Út frá þessu stóra verki höfum við búið til tæki sem við nefnum smala. Rækjutogari hefur prófað smala á Íslandsmiðum og fengið jákvæðar niðurstöður, aukið afla um 12-18% í veiðum með tvíburatrolli. Ljósabúnaðurinn var hafður í öðrum helmingi trollsins en ekki hinum og gerður var samanburður á aflanum sem fékkst í hvort troll. Núna erum við að endurtaka þessar tilraunir með framsýnum útgerðum og framsæknum skipstjórum, þar á meðal með evrópsku rækjuútgerðinni Reyktal og þar er þrautreyndur og hugmyndaríkur rækjuveiðiskipstjóri sem stýrir þeirra aðkomu í nánu samstarfi við okkur,“ segir Halla.