Sjávarútvegsráðherra Noregs, Elisabeth Aspaker, fer til Portúgals í næstu viku og mun þá undirrita samning við starfsbróður sinn þar í landi, þar sem tryggt er að Portúgalir fái hér eftir sem hingað til keyptan saltfisk frá Noregi sem ekki hefur verið bætt fosfati í. Þetta kemur fram í frétt á vef norska sjávarútvegsráðuneytisins.
Eins og fram hefur komið mun Evrópusambandið frá og með næstu áramótum aflétta banni við notkun fosfats í saltfisk en sem kunnugt er gerir fosfatið fiskinn hvítari og þannig vilja Spánverjar og Ítalir almennt fá hann. Portúgalir vilja hins vegar hafa sinn saltfisk gulan á litinn áfram og hafa haft áhyggjur af því að breyting verði á með nýju ESB-reglunum.
Engin þjóð borðar meira af norskum saltfiski en Portúgalir enda eru Norðmenn ráðandi á markaðnum. Samkvæmt könnunum borða sex af hverjum tíu Portúgölum saltfisk á jólunum.