„Þetta var ótrúlega skemmtilegt og gagnlegt fyrir verkefnið,“ segir Eva María Hilmarsdóttir, um þátttöku fulltrúa kynningarverkefnis frá Íslandi fyrir grásleppu á sjávarútvegssýningunni Polfish í Póllandi í síðustu viku.
„Við buðum gestum upp á salat úr heitreyktri grásleppu og fólk var mjög ánægt með það,“ segir Eva María. Hún bendir á að bragðið af reyktri grásleppu sé í raun ekki framandi fyrir þjóðir eins og Pólverja sem til dæmis borði mikið af reyktum makríl.
„Þannig að bragðið er ekki endilega framandi nýjung fyrir þessum hópi en fólk var hrifið. Við fengum alls konar hagnýtar upplýsingar og hittum alls konar fólk sem hjálpaði okkur að pæla í næstu skrefum,“ segir Eva María.
Einnig hafi mögulegir kaupendur gefið sig fram.
Vildu strax kaupa
„Það var þarna fólk sem vildi hreinlega fara að kaupa fiskinn en á þessu stigi erum við ekki komin það langt að við eigum eitthvert magn til að selja en það er í raun verið að þreifa fyrir sér og við sjáum alveg að það eru möguleikar til staðar hvað varðar útflutning,“ segir Eva María.
Ekki verði endilega um það ræða að framleiðslan verði hér heima. „Þetta hefur vakið áhuga á grásleppu sem nýrri tegund sem hægt væri að selja til útlanda, hvernig svo sem hún væri unnin; seld heil eða rifið innan úr hveljunni.“
Mættu á Icefish
Næsta útspil í verkefninu er strax núna á Icefish Sjávarútvegssýningunni í Fífunni. Þar segir Eva María að matreiðslumeistari hópsins, Fanney Dóra Sigurjónsdóttir, bjóði upp á krókettur úr kaldreyktri grásleppu og grásleppuhrogn í bás smábátasjómanna.
„Við erum líka að kynna fyrir Íslendingum að grásleppan sé vel ætur fiskur,“ segir Eva María sem kveður það ekki síður mikilvægt en að vinna að útflutningnum.
Verkefnið allt haldi síðan áfram. Næsta vor verði til dæmis aftur grásleppuhátíð á Bakkafirði eins og hefð sé að komast á. Þá sé ætlunin að fara á grásleppu og taka upp kynningarefni úr veiðunum sjálfum.
„Við ætlum að reyna að búa til heildarmynd af öllu ferlinu sem er ótrúlega merkilegt,“ segir Eva María