Grænlenska uppsjávarskipið Polar Ammassak hélt til loðnuveiða sl. fimmtudagskvöld og hóf veiðar um 80 mílur austnorðaustur af Langanesi seint á föstudag. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Sigurð Grétar Guðmundsson skipstjóra í morgun og lét hann vel af sér.

Loðnuvertíðin lítur býsna vel út

„Við byrjuðum á 100 tonna holi en síðan höfum við fengið 300-350 tonn í hverju holi. Holin eru orðin fimm og dregið hefur verið í 6-10 tíma. Við erum komnir með tæp 1.400 tonn og þetta er fallegasta loðna. Það eru 35-37 stykki í kílóinu. Við erum einskipa og höfum ekkert leitað."

Sigurður Grétar Guðmundsson, skipstjóri á Polar Ammassak.
Sigurður Grétar Guðmundsson, skipstjóri á Polar Ammassak.

„Við fundum torfu, köstuðum og höfum síðan verið að veiðum á sömu slóðum allan tímann. Það eru alltaf blettir að sjá hérna, ekki risatorfur en þær skila vel. Það er meiri veiði yfir nóttina en á daginn. Það er eins og loðnan þétti sig í myrkrinu. Veðrið hefur verið með ágætum, það var kaldi í eina nótt en annars bara gott veður. Við erum að fara að hífa núna, en okkur vantar ein 500 tonn til að fylla skipið. Ég reikna síðan með að landa hjá Síldarvinnslunni á morgun. Mér finnst þessi loðnuvertíð bara líta býsna vel út og engin ástæða til annars en að vera bjartsýnn,“ segir Sigurður.