Uppsjávarskipið Pathway, sem Ísfélagið í Vestmannaeyjum festi kaup á fyrir tæpu einu ári, kom inn til löndunar í Vestmannaeyjum í morgun. Skipið, sem er enn í rekstri seljandans, skoska fyrirtækisins Lunar Fishing Company Limited, hafði verið á kolmunnaveiðum í írsku lögsögunni.

Pathway er hið glæsilegasta fley, smíðað árið 2017 hjá Karstensen í Danmörku. Mynd/Stefán Geir Gunnarsson
Pathway er hið glæsilegasta fley, smíðað árið 2017 hjá Karstensen í Danmörku. Mynd/Stefán Geir Gunnarsson

„Við keyptum farminn enda lá það ágætlega við og við höfðum við símanúmerið hjá þeim. Það styttist líka í að skipið komi til okkar. Stefnt er að því að Pathway verði afhentur í Skagen í Danmörku fyrstu dagana í maí þar sem tekin verður ákveðin yfirferð á skipinu fyrir afhendingu,” segir Eyþór Harðarson útgerðarstjóri hjá Ísfélaginu.

Pathway landaði í Eyjum um 2.300 tonnum af kolmunna sem er í vinnslu hjá Ísfélaginu. Þetta var nánast fullfermi en tankapláss skipsins er 2.500 tonn. Skipið er smíðað 2017 hjá Karstensen skipasmíðastöðinni í Skagen. Það verður fimmta uppsjávarskipið í flota Ísfélagsins en fyrirtækið er nú með tvö skip í söluferli, þ.e. Heimaey VE og Suðurey VE. Ráðgert er að áhöfnin á Heimaey VE fari yfir á Pathway. Eyþór segir að verkefnin framundan hjá Pathway verði makrílvertíðin í sumar. „Við ætlum okkur stærri hluti á komandi vertíð en í fyrra,” segir Eyþór.