Orkuskortur Landsvirkjunar kemur á versta tíma fyrir loðnubræðslur landsins, nú þegar stór loðnuvertíð er að loksins hefjast eftir litla loðnuveiði undanfarin ár. Flöskuhálsinn er í dreifikerfinu.

„Ef þeir fara að loka fyrir rafmagnið í einhverjum mæli þá grípa menn til olíu í staðinn,“ segir Gunnþór Ingason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Spurður um hve mikilli olíunotkun má reikna með í bræðslunni á landsvísu á komandi loðnuvertíð, sagði hann: „Þetta eru 40 lítrar á tonn. Þannig að ef þetta eru 660-700 þúsund tonn sem yrðu brædd, þá geturðu margfaldað það.“

Hann tekur þó fram að af tíu fiskimjölsverksmiðjum landsins gangi þrjár enn fyrir olíu vegna þess að ekki er kostur á nægu rafmagni í Vestmannaeyjum og á Þórshöfn. Hinar sjö, sem afkasta um 70 prósentum af heildarframleiðslunni, þyrftu þá að nýta sér olíu þegar lokað er fyrir rafmagnið.

„Fiskimjölsiðnaðurinn er bara orkufrekur iðnaður, það snýst bara um að nýta gufuafl og varmaafl til þess að ná vökva úr fiskinum. Ef þú hefur ekki raforku til að búa til þessa orku, þá notarðu olíu,“ segir Gunnþór.

Landsvirkjun skýrði frá því á mánudag að skerðing á afhendingu raforku til fiskimjölsverksmiðja taki strax gildi, en ekki í janúar eins og ætlað hafði verið.

Nokkrar ástæður séu fyrir því að skerðingin kemur til framkvæmda fyrr en áætlað hafði verið, en jafnframt bendir Landsvirkjun á að flutningskerfið sé flöskuhálsinn sem helst strandar á.

Hábölvað

Flutningskerfið ræður ekki við að flytja alla þá orku sem hægt væri að færa milli landshluta, og nú hafi Landsvirkjun fullnýtt getu flutningskerfisins til að flytja orku frá Norðausturlandi til álagspunkta á Suðvesturlandi.

Staða í lónum sé slæm núna, en í sumar hafi það gerst að Hálslón hafi fyllst og afl yfirfallsins hafi þremur dögum síðar numið um 2000 MW: „Á 10 dögum rann því framhjá orka, sem samsvarar heilsárnotkun allra bræðslna á landinu, þegar vertíð er góð. Með sterkara flutningskerfi hefði mátt nýta stóran hluta þeirrar orku sem rann fram hjá.“

„Það er náttúrlega hábölvað að vita það núna þegar bræðslurnar eru að fara að brenna alla þessa olíu að tíu daga framhjáhlaup hefði dugað þeim,“ segir Ragnhildur Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar.

Hún segir enga leið að vita hve lengi þetta ástand varir, en bendir á að loðnubræðslur landsins hafi allar gert samninga um að kaupa skerðanlega raforku, sem er ódýrari en orka með öruggari afhendingarleiðum.

„Þær hafa verið að rafvæðast hver af annarri síðastliðin ár og alltaf keypt meira af þessari skerðanlegu orku, þannig að þeir skipta yfir á olíu þegar þarf,“ segir hún.