Ekki liggur fyrir hvenær uppsjávarskip Síldarvinnslunnar halda til veiða. Gert var ráð fyrir að þau héldu til kolmunnaveiða í færeysku lögsögunni í byrjun ársins en þar sem ekki hefur tekist að semja um gagnkvæmar veiðar í lögsögum Íslands og Færeyja ríkir óvissa um það.
Þetta kemur fram á heimasíðu Síldarvinnslunnar, en skip fyrirtækisins týnast nú til veiða eitt af öðru.
Ísfisktogarinn Gullver NS er fyrsta skipið í Síldarvinnsluflotanum sem hélt til veiða á árinu 2018; lét úr höfn á Seyðisfirði fyrr í dag. Frystitogarinn Blængur NK mun halda til veiða klukkan tíu í fyrramálið en Vestmannaeyjatogararnir Vestmannaey og Bergey munu leysa festar seinni partinn á fimmtudag.
Þá ber að geta þess að loðnuvertíð er á næsta leiti og eru menn þegar farnir að hyggja að henni, segir í fréttinni.