Sex daga loðnuleiðangri uppsjávarskipsins Aðalsteins Jónssonar lauk er skipið kom til heimahafnar á Eskifirði á sjöunda tímanum í morgun.
Niðurstöðurnar gefa ekki til kynna að þörf sé að loðnuleit strax eftir áramótin að því er kemur fram í spjalli Austurfréttar við Guðmund Óskarsson, sviðsstjóra hjá Hafrannsóknastofnun.
Ekki tilefni til að fara lengra til vesturs
Í frétt Austurfrétta segir að óverulegt magn af loðnu hafi fundist í túrnum þar sem leitað hafi verið norður af landinu, frá Langanesi vestur að Kolbeinseyjarhrygg. Haft er eftir Guðmundi að helst hafi mælst loðna við hrygginn en magn hennar verið óverulegt og ekki talið þess virði að fara lengra til vesturs.
Tillaga um næstu leit síðar í vikunni
„Guðmundur segir að svo virðist að loðnan sé ekki komin mjög austarlega og þar með sé ekkert sem kalli á að strax verði farið til loðnuleitar í byrjun nýs árs,“ segir Austurfrétt en tekur fram að nokkra daga taki að vinna betur úr niðurstöðum leiðangursins. „Seinni hluta vikunnar má vænta nánari tillagna um hvernig loðnuleit verði háttað á næsta ári,“ segir í fréttinni.