Vestmannaeyjabær leggst gegn efnisvinnslu þýska fyrirtækisins Heidelbergcement Pozzolanic Materials í sjó úti fyrir Landeyjahöfn.

Þetta kemur fram í umsögn Vestmannaeyjabæjar til Skipulagsstofnunar. Þar segir að bærinn sé ein mikilvægasta verstöð landsins.

„Svæðið sem um ræðir, „úti fyrir Landeyjahöfn“ hefur að geyma innviði sem eru ómissandi líflínur samfélagsins í Vestmannaeyjum. Um er að ræða allt rafmagn, neysluvatn og samgönguhöfn heimamanna. Það er ljóst að ef skemmdir verða á einhverjum þessara innviða eða að rekstur þeirra raskast mun kostnaður vegna lagfæringa vera gríðarlegur og afleiðingar mjög alvarlegar fyrir helstu stoðir samfélagsins t.d. húsnæði, atvinnulíf, orkuöryggi og samgöngur,“ segir í upphafi umsagnarinnar.

Hagsmunir samfélagsins vegi þyngra

„Vestmannaeyjabær telur að hagsmunir samfélagsins og hagsmunir sjávarútvegs Íslands, sem óvissa og áhætta ríkir um vegna ófyrirséðra og óafturkræfra áhrifa fyrirhugaðrar framkvæmdar, hljóti að vega þyngra en ósk fyrirtækis um námugröft á einu mikilvægasta hrygningarsvæði Íslandsmiða,“ segir bærinn einnig.

Fram kemur að fyrirhugað sé að vinna allt að 80 milljónir rúmmetra af efni á svæðinu á 30 árum. Það geri 2,67 milljón rúmmetra á ári. Segja Eyjamenn að miðað við upplýsingar í umhverfismatsskýrslu sé jafnvægisdýpi samkvæmt fræðilegum útreikningum um 19 metrar við suðurströnd Íslands og í nálægð Landeyjahafnar. Það skjóti skökku við að framkvæmdaaðili geri ráð fyrir að stunda efnistöku á 15 til 20 metra dýpi og að rætt sé um það sem mótvægisaðgerð. gera megi ráð fyrir að námuvinnsla leiði til landrofs umhverfis hvers efnistökusvæðis og aukinna setflutninga á svæðinu umfram efnistökusvæðið sjálft.

Ófyrirsjáanlegar afleiðingar

„Draga má þá ályktun að með því að grafa á mörgum stöðum muni efnisflutningar og óstöðugleiki efnis á svæðinu aukast með ófyrirsjáanlegum afleiðingum,“ segir í umsögninni.

„Vestmannaeyjabæ þykir ekki hafa verið lögð fram sannfærandi gögn fyrir því að slík efnistaka muni ekki valda strandrofi eða breyta einkennum og stöðugleika svæðisins. Óvissa um þetta atriði er algerlega óásættanleg frá sjónarhóli Vestmannaeyjabæjar,“ segir í umsögninni.

Óviss áhrif á verðmætustu nytjastofna Íslands

Gerðar eru alvarlegar athugasemdir við möguleg áhrif efnistökunnar á mikilvæga innviði og einnig á sjávarútveg.

„Svæðið er innan mikilvægs hrygningasvæðis margra fiskistofna, þar með talið loðnu og þorsks sem eru verðmætustu nytjastofnar Íslandsmiða. Áhrif efnistöku með dælingu á egg, lirfur og seiði margra fisktegunda eru að miklu leyti óþekkt. Að auki er um að ræða mikilvægt uppeldissvæði fyrir fjölmargar fisktegundir og er svæðið því verðmætt fyrir sjávarútveg á Íslandi,“ segir Vestmannaeyjabær.

Áhrifin óafturkræf þegar þau koma í ljós

Möguleg alvarleg áhrif efnisvinnslu á bæði hrygningar og lífríki sjávar, sem og setflutninga og landbrot eru sögð munu koma fram á löngum tíma og verði þá orðin óafturkræf.

„Vestmannaeyjabær ítrekar að sveitarfélagið getur aldrei veitt jákvæða umsögn á meðan ekki er hægt að tryggja að efnisvinnslan hafi engin áhrif á nytjastofna eða ógni lífæðum samfélagsins þegar um slíka gríðarlega mikilvæga innviði er að ræða sem eru forsenda byggðar í Vestmannaeyjum.“

Umsögnina í heild má lesa hér.